Útflutningsverðmæti sjávarafurða hafa aldrei verið meiri

Deila:

Samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands námu útflutningsverðmæti sjávarafurða í desember 33 milljörðum króna. Að því gefnu námu útflutningsverðmæti á árinu 2022 í heild sinni 349 milljörðum króna og jukust því um 18% milli ára. Um þetta er fjallað á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins og þar er bent á að þar sem viðskiptavegið gengi krónunnar hafi að jafnaði verið um 3% hærra á árinu 2022 en árið 2021 sé aukningin heldurmeiri í erlendri mynt eða tæp 22%. Á þann kvarða hafi útflutningsverðmæti sjávarafurða aldrei verið meiri á einu ári, jafnvel þótt leiðrétt væri fyrir verðbólgu erlendis og verðmætin þá að raunvirði.

Loðnuvertíðin og Úkraínustríðið veigamiklir áhrifavaldar
„Það eru ótal þættir sem koma við sögu sem hafa áhrif á útflutningsverðmæti sjávarafurða frá einu ári til annars,” segir í umfjölluninni. „Í fyrra bar einna hæst til tíðinda stór loðnukvóti sem skilaði sér í einni verðmætustu loðnuvertíð sögunnar. Eins hafði sú mikla hækkun sem var á verði sjávarafurða erlendis veruleg áhrif, enda vó hún upp og gott betur þann samdrátt sem varð á aflamagni mikilvægra botnfisktegunda, sér í lagi þorsks. Sú mikla hækkun á afurðaverði kom þó vissulega ekki af hinu góða, enda skýrist hún að hluta til af innrás Rússa í Úkraínu. Fyrir innrásina hafði fiskverð farið hækkandi í takti við batnandi aðstæður á mörkuðum og áhrifin af kórónuveirufaraldrinum minnkuðu. Sú mikla óvissa sem áhrif stríðsins leiddi til, og þær viðskiptaþvinganir sem Vesturlöndin gripu gegn Rússlandi, stuðlaði að frekari verðhækkunum. Hvað sem því líður er óhætt að segja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi tekist vel til á nýliðnu ári við að hámarka verðmætin úr takmörkuðum afla. Það er ekki sjálfgefið. Vissulega er útflutningsverðmæti ekki algildur mælikvarði á stöðu sjávarútvegs. Til að mynda hefur sá mikli samdráttur sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski gert fyrirtækjum erfiðara um vik að útvega nægt hráefni til þess að halda vinnslum gangandi og tryggja heilsársstörf. Hækkun á verði var heldur ekki bundin við verð á sjávarafurðum, enda var allt að hækka, þar með talið flestir kostnaðarliðir sjávarútvegsfyrirtækja við framleiðslu og útflutning.“

Deila: