Langar til að ferðast um Ítalíu

Deila:

Maður vikunnar í dag er Vesturbæingur. Hún starfar hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem áður hét Brim. Hún segir sjávarútveginn atvinnugrein þar sem mörg tækifæri bjóðist. Henni finnst skemmtilegt að ferðast, borða góðan mat og verja tíma með vinum og fjölskyldu.

Nafn:

Ásrún Lilja Birgisdóttir.

Hvaðan ertu?

Vesturbænum.

Fjölskylduhagir?

Ég er í sambúð með kærastanum mínum Tryggva Páli.

Hvar starfar þú núna?

Ég er gjaldkeri hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur og tengdum fyrirtækjum.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði fyrst að vinna sumarvinnu árið 2014 í bókhaldinu hjá Brim hf. sem er Útgerðarfélag Reykjavíkur í dag.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Mér finnst sjávarútvegurinn svo áhugaverð atvinnugrein þar sem fullt af tækifærum bjóðast. Ég er t.d. nýlega búin að skrá mig í félag fyrir konur í sjávarútvegi (KIS) og hlakka mikið til að kynnast þeim kláru og flottu konum sem eru í því félagi og læra um leið meira um sjávarútveginn.

En það erfiðasta?

Mér dettur nú ekkert sérstakt í hug í fljótu bragði.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ég get ekki nefnt eitthvað eitt sem ég hef lent í en það eina sem mig dettur í hug er að eitt af fyrirtækjunum sem ég vinn hjá er grænlenskt og er ég því í daglegum tölvupóstsamskiptum við grænlenska samstarfsfélaga sem ég hef aldrei hitt. Það er smá skrýtið en það væri gaman að fá að hitta þetta fólk einn daginn.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég myndi segja að það væri nú frekar erfitt að gera upp á milli alls góða starfsfólksins sem ég hef unnið með í gegnum tímann hjá ÚR.

Hver eru áhugamál þín?

Ég æfði handbolta þegar ég var yngri og hef alltaf haft rosa gaman af þeirri íþrótt. Annars finnst mér lang skemmtilegast að ferðast, borða góðan mat og verja tíma með vinum og fjölskyldu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ætli gott humarpasta standi ekki upp úr.

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég fór í árshátíðarferð með vinnunni síðasta vor til Verona á Ítalíu og var ég rosalega hrifin af þeirri borg. Svo draumafríið væri klárlega að ferðast meira um Ítalíu og skoða allar þær fallegu borgir sem landið býr yfir. Annars held ég að það skipti engu máli hver áfangastaðurinn er svo lengi sem þú ert með skemmtilegu fólki sem þér líður vel með í fríinu.

 

Deila: