Breki VE og ÍBV í toppbaráttu!

Deila:

„Strákarnir taka þetta í Hafnarfirði á laugardaginn, við sendum þeim góða strauma,“ sagði Magnús Ríkarðsson skipstjóri á Breka VE í brúnni í fyrrakvöld í samtali við heimasíðu Vinnslustöðvarinnar. Togarinn var þá austur af landinu að reyna við ufsa í norðaustan skítakulda, 16-18 metrum á sekúndu. Það snjóaði meira segja á miðunum í dag.

Handboltaleiknum mikla í Eyjum var nýlokið og áhöfnin á Breka að sjálfsögðu himinlifandi með sigur sinna manna. Úrslit ráðast svo  í Hafnarfirði um helgina og allt undir.

Áhöfnin á Breka VE er reyndar í toppbaráttu líka en sú er aðeins öðruvísi í eðli sínu en sú sem handboltastrákarnir heyja. Breki var aflahæsti togari landsins í apríl með tæplega 940 tonn, tveimur tonnum meira en Viðey RE í 2. sæti!

Í marsmánuði var Breki í 2. sæti á þessum sama lista með 1.182 tonn en þá var Drangey SK á toppnum með 1.188 tonn. Mjótt á munum þar líka.

„Okkur hefur gengið sæmilega það sem af er maímánuði,“ sagði skipstjórinn í kvöld. Breki kom reyndar með fullfermi að landi úr síðasta túr en Maggi er hógværðin uppmáluð. Það er hluti af keppnisskapi að virka afslappaður og ligeglad en vera kúl.

„Auðvitað blasir við að allt virkar vel hjá okkur. Skipið er gott, veiðarfærin sömuleiðis og um borð er úrvalsmannskapur. Já, þetta hefur einfaldlega farið fram úr björtustu vonum.“

Gert er ráð fyrir að Breki komi til hafnar í Eyjum á mánudaginn.

 

Deila: