Norðmenn landa loðnu

Deila:

Lítið er að gerast á loðnumiðunum þessa stundina enda flest öll uppsjávarskip, íslensks og norsk, við bryggju eða í vari meðan brælan gengur yfir. Líklegt er út frá veðurspám að bræla haldi skipunum frá veiðum fyrri hluta vikunnar.

Ljóst er að margir höfðu væntingar um talsvert meiri viðbót á loðnukvótann en raunin varð eftir niðurstöður loðnuleitar á dögunum og líklegt að íslensku skipin doki eftir meiri hrognafyllingu áður en farið verður á fulla ferð til að ná þeim loðnukvóta sem í boði er.

Norsk skip hafa verið á veiðum fyrir austan land síðustu sólarhringa og lönduðu t.d. tvö þeirra á Fáskrúðsfirði um helgina. Annars vegar landaði Norderveg 270 tonnum og hins vegar Österbris 190 tonnum. Þá landaði norska skipið Selvag á Fáskrúðsfirði fyrir helgi. Það var í fyrsta sinn sem skipið landar hjá Loðnuvinnslunni og að vanda fengu skipverjar köku að launum.

Á meðfylgjandi mynd eru norsk loðnuskip við bryggju á Fáskrúðsfirði. Mynd: Þorgeir Baldursson

Deila: