Fiskistofa braut á smábátasjómanni með drónaeftirliti

Deila:

Fiskistofa braut á smábátasjómanni með því að mynda hann með dróna þegar hann var við veiðar. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar. Stofnunin telur ekkert í lögum heimila Fiskistofu að sinna eftirliti sínu með leynd.

Skipstjórinn var að veiðum skammt frá landi þegar eftirlitsmenn á vegum Fiskistofu sendu dróna á loft til að hafa eftirlit með veiðum hans. Þegar myndefnið var skoðað var það mat Fiskistofu að grunur væri um að skipstjórinn hefði brotið gegn lögum um umgengni um nytjastofnar sjávar. Maðurinn taldi Fiskistofu ekki mega vinna persónuupplýsingar með þessum hætti og kvartaði.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að vinnsla Fiskistofu á persónuupplýsingum kvartanda hafi ekki grundvallast á vinnsluheimild. Þá samrýmdist hún hvorki meginreglu persónuverndarlaganna um gagnsæi né reglum um fræðsluskyldu.

Persónuvernd hefur lagt fyrir Fiskistofu að færa vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað við eftirlit með upptökum með dróna til samræmis við ákvæði persónuverndarlöggjafarinnar um gagnsæi, fræðsluskyldu og vinnsluheimild. Skal staðfesting á því að farið hafi verið eftir fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 28. apríl 2023.

Í viðtali við RÚV er haft eftir Ögmundi Hauki Knútssyni Fiskistofustjóra að úrskurðurinn komi á óvart. Talsvert samráð hafi verið haft við Persónuvernd áður en farið hafi verið í drónaeftirlit. Hann sagði hins vegar að í fyrrasumar hafi Fiskistofu verið veitt ríkari heimildir til eftirlits af þessu tagi og því telji hann úrskurðinn, sem fjalli um eldra mál, sennilega hafa lítil eða engin áhrif á það hverni Fiskistofa sinnir drónaeftirliti í dag.

Deila: