Miðað við þrjú bestu árin 2014-2022

Deila:

Viðmiðunarár fyrir kvótasetningu grásleppu eru árin 2014 til 2022. Þar verður tekið mið af þremur bestu árunum á því tímabili. Þetta má lesa úr frumvarpi matvælaráðherra um veiðistjórn grásleppu, sem birt hefur verið á vef Alþingis. Tilgangur frumvarpsins er sagður að auka fyrirsjáanleika við veiðarnar og tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar. Landssamband smábátaeigenda hefur lýst sig andvígt kvótasetningunni.

Í greinargerð segir að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til veiðireynslu. Þá er mælt fyrir um að framsal aflahlutdeilda í grásleppu og flutningur aflamarks í grásleppu á milli staðbundinna veiðisvæða verði óheimill nema í undantekningartilvikum þegar náttúrulegar aðstæður breytast verulega. Frumvarpið kveður á um að ráðherra megi draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta til nýliða sem eru að hefja veiðar í fyrsta sinn.

Í greinargerðinni segir að tekið hafi verið tillit til umsagna sem bárust í samráðsgátt stjórnvalda og viðmiðunartímabilið lengt. Miða skuli við þrjú bestu árin frá 2014 til 2022.

„Rökin fyrir því að miða við þrjú bestu veiðitímabilin á þessum níu árum eru að grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu það ár. Þá eru aflabrögð misjöfn á milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnast út með lengra viðmiðunartímabili,“ segir meðal annars.

Deila: