„Ég held að aldrei hafi verið veitt jafn víða“

Deila:

Sigurður Hörður Kristjánsson og félagar á frystitogaranum Blæng NK lögðu í mikla reisu í veiðiferð sem lauk þegar skipið kom til hafnar á Neskaupsstað á mánudagskvöld. Aflinn var 633 tonn eða tuttugu þúsund kassar af fiski. Uppistaða aflans var grálúða, ýsa og ufsi.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir Sigurður að þeir hafi farið mjög víða.

„Ég held að aldrei hafi verið veitt jafn víða. Það var í reyndinni farið allt í kringum landið. Við byrjuðum fyrir austan, síðan var farið á Selvogsbankann og eins var veitt úti fyrir Norðurlandinu. Lengst var þó verið fyrir vestan. Helmingurinn af túrnum fór í að leita að ufsa með harla litlum árangri. Ufsinn reynist öllum afskaplega erfiður um þessar mundir en hinsvegar virðist vera gott ástand á öðrum stofnum og þar vil ég til dæmis nefna ýsu og karfa. Þrátt fyrir slaka ufsaveiði gekk túrinn alveg þokkalega,“ segir Sigurður Hörður.

Blængur heldur á ný til veiða í kvöld.

Deila: