Kaldbakur kaupir allt hlutafé í Optimar

Deila:

„Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu Optimar International AS (Optimar) af þýska eignarhaldsfélaginu Franz Haniel & Cie. GmbH (Haniel). Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi.”

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaldbaki ehf.

Þar segir að Optimar hafi höfuðstöðvar í Ålesund á vesturströnd Noregs. Um sé að ræða alþjóðlegt fyrirtæki með starfsstöðvar á Spáni, í Rúmeníu og Bandaríkjunum, auk Noregs.

„Optimar er með viðskiptavini í meira en 30 löndum og er þekkt fyrir nýsköpun í vöruþróun og hágæða þjónustu. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri Optimar sem mun áfram þjónusta viðskiptavini sína sem sjálfstætt fyrirtæki í samstæðu Kaldbaks ehf. Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. er í eigu tveggja stofnenda Samherja hf. og fjölskyldna þeirra. Með fjárfestingu í Optimar leitast Kaldbakur við að styrkja stöðu sína sem fjárfestir í haftengdum iðnaði.”

Deila: