Afmæli og þriggja hátíð í Fjallabyggð

Deila:

Mikið er jafnan um dýrðir í Ólafsfirði um sjómannadagshelgina og enn frekar í ár þegar fagnað er 40 ára afmæli Sjómannafélags Ólafsfjarðar. Af því tilefni gefur félagið út ríflega 200 síðna afmælisbók sem dreift verður til allra heimila í Ólafsfirði að í kvöld, föstudaginn 2. júní. Atli Rúnar Halldórsson er höfundur bókarinnar og hafði umsjón með útgáfunni. Sjómannafélag Ólafsfjarðar hefur veg og vanda að dagskrá helgarinnar sem fyrr og nýtur í því verkefni stuðnings fjölda fyrirtækja í heimabyggð og víðar.

Fiskidagur á Siglufirði, uppistand og Föstudagslögin í Tjarnarborg
Eiginleg dagskrá sjómannadagshelgarinnar í Fjallabyggð hefst í dag með fiskidegi við brugghús Seguls 67 á Siglufirði en þar verður hægt að fá Fish&Chips frá Fiskbúð Fjallabyggðar og ískaldan Segul 67, auk þess sem skemmtiatriði verða fyrir börnin. Klukkan 16 verður leirdúfuskotmót sjómanna á svæði Skotfélags Ólafsfjarðar og kl. 20 verður uppistandssýningin Best of Sóli Hólm í Tjarnarborg í Ólafsfirði. Að þeirri sýningu lokinni verða Föstudagslögin með Sverri Bergmann, Halldóri Gunnari og Audda Blö í Tjarnarborg.

Dorgveiðikeppni, kappróður og trukkadráttur
Dagskrá laugardagsins verður mjög þétt. Hún hefst með dorgveiðikeppni fyrir börnin við Ólafsfjarðarhöfn kl. 10 og kl. 12:30 verður kappróður sjómanna. Þar á eftir verður keppt um Alfreðsstöngina, tímaþraut og trukkadráttur við Tjarnarborg. Boðið verður upp á sjávarréttasúpu og grillaðar pylsur. HeliAir verður með þyrluflug frá Ólafsfjarðarvelli kl. 17 og á sama tíma hefst knattleikur sjómanna og landmanna á vellinum. Á laugardagskvöldinu kl. 21 verður svo útiskemmtun við Tjarnarborg.

Stjörnum prýdd árshátíð sjómanna
Dagskrá sjómannadagsins hefst með skrúðgöngu frá hafnarvog að Ólafsfjarðarkirkju kl. 10.15 en í hátíðarmessu dagsins verða sjómenn heiðraðir. Fjölbreytt fjölskylduskemmtun verður við Tjarnarborg kl. 13:30 og innandyra verður kaffisala Slysavarnadeildar kvenna og stendur hún til kl. 16. Hápunktur hátíðarhaldanna verður árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu í Ólafsfirði kl. 19 en veislustjórn verður í höndum Audda Blö og Steinda Jr. Þar verða veitt verðlaun fyrir afrek helgarinnar, Ari Eldjárn skemmtir, sem og Ragga Gísla og Bríet sem koma fram með hljómsveitinni Albatross. Frá kl. 23 verður dansleikur með Albatross sem verður öllum opinn.

Deila: