Bjargvættur í vesti í skip Vinnslustöðvarinnar

Deila:

Björgunarvestum með AIS-senditækjum til GPS-staðsetningar hefur verið komið um borð í skip Vinnslustöðvarinnar, ætluðum öllum í áhöfnum þeirra til aukins öryggis á sjó. Þetta kemur fram í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar. Þrátt fyrir að tækið sé ekki stórt getur það ráðið úrslitum um farsæla björgun ef sjómaður fellur útbyrðis.

Tækið er fest í björgunarvesti og byrjar að senda frá sér sjálfvirkt neyðarmerki fimmtán sekúndum eftir að maður fer í sjóinn. Neyðarmerkið heyrist í talstöðvum um borð í viðkomandi skipi og kemur inn á radar annarra skipa sem kunna að vera í grenndinni.

„Mestu máli skiptir auðvitað í björgunaraðgerðum að alltaf er nákvæmlega vitað hvar í sjónum manninn er að finna. Sendirinn er því sannkallaður bjargvættur í vesti,” segir í fréttinni.

Þar segir einnig að fyrirtækið hafi keypt vestin og senditækin af Pétó ehf. slökkvitækjaþjónustu, fyrirtækis Gríms Guðnasonar og Eyglóar Kristinsdóttur í Vestmannaeyjum. Viking björgunarbátar flytji inn vestin og tækin en senditækið sé brekst. Það heitir MOP, sem stendur fyrir Man Over Board.

Á efstu myndinni eru framkvæmdastjórarnir Einar Gylfi Haraldsson hjá Viking björgunarbúnaði í Hafnarfirði og Grímur Guðnason hjá Pétó slökkvitækjaþjónustu í Vestmannaeyjum. Hér má einnig sjá einfalda skyssu af því hvernig þráðlaus sendi- og staðsetningartækni virkar. Loks má sjá mynd af tækinu.

Nánar er fjallað um málið á vef Vinnslustöðvarinnar.

Deila: