Makrílveiðar fara rólega af stað

Deila:

Fyrsti makríll vertíðarinnar er kominn til hafnar. Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupsstaðar í gærmorgun með fyrsta framinn, 1.270 tonn. Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að Vilhelm sé í veiðisamstarfi með Síldarvinnsluskipunum Barða, Beiti og Berki, auk Margrétar EA. Aflinn kemur af öllum þessum skipum.

Haft er eftir Birki Hreinssyni skipstjóra á Vilhelm að vertíðin fari rólega af stað. Aflinn komi úr smugunni. Um sé að ræða 400 gramma fisk sem sé fullur af átu. Nú séu skipin komin í íslenska lögsögu en þar sé aflinn síldarblandaður. „Annars er ég bjartsýnn hvað vertíðina varðar og þetta er kannski ekki ósvipað og var í fyrra. Þá kom smá skot í upphafi vertíðar en síðan var tregt í hálfan mánuð eða svo. Eftir það rættist úr veiðinni. Þetta á örugglega allt eftir að lagast og það er jákvætt að menn verði varir við makríl í okkar lögsögu. Við munum ljúka við að landa síðdegis í dag eða í kvöld og þá verður að sjálfsögðu haldið beint til veiða á ný,“ er haft eftir Birki.

Í frétt Síldarvinnslunnar segir auk þess að allt sé að komast í fullan gang í fiskiðjuveri fyrirtækisins á Neskaupstað. Þar ríki bjartsýni.

Deila: