Nýr sviðsstjóri botnsjávarsviðs

Deila:

Jónas Páll Jónasson, Ph.D. hefur tekið við starfi sviðsstjóra botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar.„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á nýjum aðferðum við rannsóknir og vöktun sem og þróun á veiðiaðferðum. Umhverfið okkar í sjónum við Ísland getur og hefur verið mjög hvikult. Það er að mínu mati mjög spennandi og áhugavert að fylgjast með, fá samhengi í og vakta breytingar á stofnum og samfélögum,“ er haft eftir Jónasi Páli á vefnum.

Botnsjávarsvið sinnir vöktun og rannsóknum á botnlægum tegundum, allt frá okkar helstu nytjategund þorskinum til viðkvæmra og flókinna búsvæða.

„Við erum búin að vera í varnarbaráttu nokkuð lengi. Bæði hvað varðar almennar rannsóknir og einnig vöktun margra minni stofna. Á sama tíma hafa kröfur samfélagsins og áhugi á vannýttum stofnum aukist.

Stór verkefni bíða sviðsins við skipulagningu nýtingar við Íslands, eins og áherslur stjórnvalda um friðun 30% hafsvæða fyrir árið 2030. Þessi verkefni passa vel innan þess ramma sem Hafrannsóknastofnun hefur verið að sinna, eftir bestu getu. Vonandi getum við eflt starfsemina á þessum sviðum, bæði með auknu fjármagni og styrkjafé.“

Deila: