Segir Hval undirbúa milljarða skaðabótakröfu

Deila:

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins segir alveg ljóst að Hvalur hf. sé að undirbúa margra milljarða króna skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu. Þetta skrifar hann í færslu á Facebook, þar sem hann lýsir yfir ánægju sinni með að fyrirtækið hafi boðið starfsmönnunum sem höfðu ráðið sig á vertíð vinnu í sumar. Tímabundið hvalveiðibann rennur út 1. september næstkomandi.

Vilhjálmur segir að við blasi að Hvalur muni fara til veiða 1. september til að reyna að lágmarka það tjón sem matvælaráðherra hafi valdið starfsmönnum og fyrirtækinu. „Rétt er að geta þess að sú vinna sem er í boði hjá Hval er einungis dagvinna ef ég skil þetta rétt og nema þær launatekjur einungis brot af þeim tekjum ef þetta ólöglega tímabundna hvalveiðibann hefði ekki komið til,” skrifar hann og heldur áfram:

„Það verður fróðlegt að sjá hvort matvælaráðherra ætli að halda áfram að ástunda ógeðfelld stjórnsýsluvinnubrögð og heimila ekki veiðarnar 1. september eins og ráðherrann hefur nú þegar gefið í skyn að hún ætli sér að gera,” skrifar formaðurinn.

Hann segir enn fremur að fróðlegt verði að sjá viðbrögð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ef matvælaráðherra heimili ekki veiðar frá 1. september. „Mitt mat er að ef veiðarnar verði ekki heimilaðar þá hljóti þetta ríkisstjórnarsamstarf að springa, annað er nánast útilokað.”

Deila: