Mokveiði í Smugunni

Deila:

Barði NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1.400 tonn af makríl úr Smugunni. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að að aflinn sé ýmist heilfrystur eða hausskorinn í fiskiðjuveri fyrirtækisins.

Haft er eftir Þorkeli Péturssyni skipstjóra að skipið hafi verið að veiðum mjög norðarlega í Smugunni. 520 mílur hafi verið þaðan til Neskaupstaðar, þegar lagt var af stað í land. Hin skipin sem séu í veiðisamstarfinu séu enn norðar. „Það hefur verið rosaleg ferð á fiskinum. Hann var á norðurleið þegar við vorum úti en nú skilst mér að hann stefni í austur í átt að norsku línunni. Veiðin hefur verið misjöfn, stundum þarf að leita að fiskinum og stundum er mok. Þegar við vorum að klára á miðunum hófst alger mokveiði. Börkur fékk til dæmis 550 tonna hol og Beitir fékk hvorki meira né minna en 1.000 tonna hol. Þá hlýtur að hafa verið býsna þungt trollið hjá þeim Beitismönnum en þeir hafa örugglega reddað því ágætlega. Mér skilst að megnið af aflanum í þessu stóra holi hjá Beiti hafi komið á tveimur tímum eða svo,” útskýrir hann.

Haft er eftir Grétari Erni Sigfinnssyni rekstrarstjóra Síldarvinnslunnar að gera hafi þurft ýmsar ráðstafanir vegna veiðiskotsins mikla um helgina. Börkur sé nú á leið til Færeyja með 2.100 tonn og Beitir á leið til Neskaupstaðar með 1.500 tonn. Samherjaskipin, sem eru í veiðisamstarfi með Síldarvinnsluskipunum, Vilhelm Þorsteinsson og Margrét, eru hins vegar að veiðum núna.

Deila: