Síðasti túr Steinþórs

Deila:

Steinþór Hálfdánarson, skipstjóri á Gullver NS, kom til Seyðisfjarðar í gær, að lokinni stuttri veiðiferð. Túrinn markaði þau tímamóti í lífi Steinþórs og Síldarvinnslunnar, að um var að ræða síðasta túrinn hans sem togaraskipstjóri. Frá þessu er greint á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að Steinþór eigi að baki langan og farsælan sjómannsferil.

Aflinn í þessum síðasta róðri var 55 tonn; mest fallegur þorskur. Gullver fer nú í slipp og 40 ára skoðun á Akureyri. Gullver hefur ávallt verið gerður út frá Seyðisfirði og reynst afskaplega vel.

Fram kemur í viðtali við Steinþór að hann hafi farið í sinn fyrsta róður 15 ára á Mími NK. Það hafi verið farið á skak við Langanes. Sjómennskan hafi kveikt í honum strax. „Sumarið eftir, en það hefur verið sumarið 1969, fór ég á Bjart NK. Bjartur var þá á grálúðulínu og síðan á síld í Norðursjó. Fyrir ungan strák var rosalega spennandi að fara í Norðursjóinn. Bjartur landaði mest í Skagen eins og Síldarvinnslubátarnir gerðu yfirleitt og það var auðvitað ævintýri kynnast lífinu í dönskum bæ. Ég fór í fimm sumur í Norðursjóinn, fyrst á Bjarti en síðan á Berki og á Víði,” er haft eftir Steinþóri.

Hann lauk námi í Stýrimannaskólanum 1974 en allar götur síðan hefur hann fyrst og fremst sinnt hlutverki stýrimanns eða skipstjóra á þeim skipum sem hann hefur verið á. Hann ræðir í viðtalinu um þær breytingar sem átt hafa sér stað á sjómannsferlinum.

„Allur aðbúnaður um borð hefur breyst mikið til batnaðar og á nýjustu skipunum er hann til hreinnar fyrirmyndar. Einnig hefur öll tækni við veiðarnar tekið miklum framförum. Tilkoma fullkominna mæla gerir mönnum kleift að fylgjast náið með veiðarfærunum og það skiptir svo sannarlega miklu máli. Þá hafa einnig gríðarlegar breytingar átt sér stað á sviði fjarskipta og eru framfarirnar þar hreint ótrúlegar. Þá vil ég nefna öryggismálin en á því sviði hefur allt breyst mikið til batnaðar. Nú er öryggismálunum sinnt af áhöfnum skipa af miklum áhuga en einu sinni þurfti að neyða menn til að vera með öryggishjálma og í líflínum úti á dekki. Þessi breyting er afskaplega gleðileg en áður fyrr réði kæruleysið ríkjum þegar öryggismál voru annars vegar. Loks vil ég nefna að tilkoma kvótakerfisins hefur breytt mjög miklu. Nú er öll meðferð á fiski betri en áður og hugsað er um að koma með sem best hráefni að landi. Áður fyrr var algengt að öll áhersla væri lögð á að fiska sem mest og minna hugsað um að gera sem mest verðmæti úr aflanum og framleiða gæðavöru,” segir hann.

Nánar er rætt við Steinþór hér.

Deila: