Göt á sjókví í Patreksfirði

Deila:

Síðastliðinn sunnudag, 20. ágúst, barst Fiskistofu tilkynning um að göt hefði fundist á sjókví Arctic Seafarm við Kvígindisdal í Patreksfirði. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Þar segir að viðbragðsáætlun hafi verið virkjuð og net hafi verið lögð við sjókvínna sem götin fundust á. Engir fiskar komu í netin, sem eftirlitsmaður Fiskistofu tók þátt í að leggja.

Í fréttinni segir að drónaeftirlit hafi í kjölfarið farið fram. Sést hafi til fiska í Ósá 22. ágúst. Fiskistofa gerði viðkomandi landeigendum viðvart og mælti fyrir um að Arctic Seafarm skyldi leggja net í sjó nálægt ósi Ósár, 23. ágúst, og einnig voru net lögð í Ósá. Var það gert og var eftirlitsmaður Fiskistofu með við lagningu neta. Fjórir laxar veiddust í netin sem allir höfðu eldiseinkenni. Fiskarnir verða afhentir Hafrannsóknastofnun til erfðagreininga og frekari rannsókna.

„Fiskistofa hefur mælt fyrir um það að fleiri net skuli lögð og að áfram verði netaveiði reynd í sjó í Patreksfirði um helgina. Fiskistofa fylgist náið með veiðunum og mun endurmeta þörf fyrir aðgerðir ef tilefni verður til,” segir í fréttinni.

Deila: