Alvarlegar athugasemdir við frumvarp Svandísar

Deila:

SFS gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra um lagereldi, sem kynnt er í samráðsgátt. Í fyrstu athugsemdinni segir að samkvæmt frumvarpinu séu viðurlög við tilteknum atriðum svo þung að vegið yrði alvarlega að rekstrargrundvelli fyrirtækja í sjókvíaeldi á Íslandi, yrði frumvarpið að lögum.

SFS segist þó styðja að efla þurfi stjórnsýslu, eftirlit og umhverfi sjókvíaeldis á Íslandi svo atvinnugreinin geti haldið áfram að vaxa og orðið ein af burðarstoðum íslensks atvinnulífs í sátt við náttúru og samfélag. Þá hafi samtökin jafnframt lagt áherslu á mikilvægi þess að laga regluverk landeldis að þörfum greinarinnar og draga fram þau sérkenni sem skilja landeldi frá sjókvíaeldi. Samtökin styðji því tillögur ráðherra þess efnis.

Aðrar athugasemdir eru:

  • Ráðherra gengur þvert á leiðarstef ítarlegrar skýrslu Boston Consulting Group sem unnin var fyrir matvælaráðherra á liðnu ári. Þar var bæði mælt með hóflegri gjaldtöku í vaxandi atvinnugrein sem og framsækni til framtíðar enda tækifærin mörg. Ráðherra leggur bæði til háa og íþyngjandi skatta og vegur að rekstrargrundvelli fyrirtækjanna.
  • Horfið er frá því að friða hafsvæði gagnvart sjókvíaeldi eftir lögákveðnum leiðum, með auglýsingu, að undangengnu vísindalegu mati og ítarlegu samráði. Í frumvarpinu er lagt til að friða bæði Eyjarfjörð og Öxarfjörð fyrir sjókvíaeldi. Þessi friðunaráform voru ekki kynnt sem hluti af því samráðsferli sem hefur átt sér stað á árinu. Hvorki hefur því farið fram samráð né vísindaleg skoðun á svæðunum með tilliti til þess hvort þau henti undir sjókvíaeldi samkvæmt þeim skilyrðum sem um önnur svæði gilda.
  • Í frumvarpinu er lögð til grundvallarbreyting á gjaldaumhverfi sjókvíaeldis, en núverandi fyrirkomulag byggði á tilliti til vaxtar greinarinnar svo ekki yrði vegið að rekstrargrundvelli. Með frumvarpinu ætlar ráðherra að auka þunga skatta og gjalda á fyrirtæki í sjókvíaeldi. Ganga þessi áform verulega lengra en gert er í þeim löndum sem við berum okkur saman við, þar sem stutt var við vöxt greinarinnar með skynsamlegu gjaldaumhverfi í árdaga uppbyggingar.
  • Hærri skattar og gjöld draga eðli málsins úr svigrúmi fyrirtækja til að fjárfesta í nýrri tækni eða lausnum. Ráðherra gerir þrátt fyrir það auknar kröfur á fyrirtæki í sjókvíaeldi til fjárfestinga í umhverfisvænni lausnum til matvælaframleiðslu. Það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum. Mikill vilji er hins vegar hjá fyrirtækjum í sjókvíaeldi til að leita umhverfisvænustu leiða í sinni starfsemi, en til þess þarf mikið og þolinmótt fjármagn.
  • Ráðherra gengur þannig gegn hagsmunum fjölda fólks í þeim sveitarfélögum sem byggja lífsviðurværi sitt á ábyrgu og sjálfbæru sjókvíaeldi. Einnig er með tillögu um friðun í frumvarpinu vegið að framtíðarmöguleikum sveitarfélaga til verðmætasköpunar með sjókvíaeldi á svæðinu.
Deila: