Norskir kafarar með skutbyssur mættir til landsins

Deila:

Norskir kafarar eru mættir til landsins; sérfræðingar í að veiða eldislax með skutulbyssum. RÚV greinir frá þessu. Þeir hefjast handa við að kafa eftir strokulaxi í Ísafjarðará í dag. Þeir verða svo við störf hér á landi út vikuna og munu kemba valdar íslenskar veiðiár.

Fiskistofa stendur fyrir komu þeirra. Markmiðið er að reyna að lágmarka tjónið sem varð þegar mikill fjöldi laxa slapp úr kví í Patreksfirði á dögunum. Á annað hundrað eldislaxar hafa veiðst í ám á Vestur- og Norðurlandi síðan. Fiskistofa freistar þess að koma í veg fyrir erfðablöndun.

Fram kemur í frétt RÚV að árlega fari þessir menn yfir 100 ár í Noregi með þessum hætti. Þeir búi því að mikilli reynslu. Kafararnir eru með skutbyssur og skjóta eldislaxinn ef færi er á. Fram kemur að ef mikið finnst af laxi muni þeir grípa til annarra veiðiaðferða, svo sem ádráttarveiði eða netaveiði.

Fram kemur enn fremur að Fiskistofa muni leggja út fyrir þessum aðgerðum en að farið verði fram á að Arctic Fish standi straum af kostnaðinum.

Deila: