Ný ferja á leið í Breiðafjörðinn

Deila:

Vegagerðin hefur fest kaup á nýrri ferju til að annast siglingar á Breiðafirði. Skipið heitir Röst og kemur frá Noregi. Vegagerðin hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt Sæferðum um að Sæferðir annist siglingar á Breiðafirði með Röstinni, unnið er að samningi milli aðila.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Þar segir að Röstin fari í slipp þegar hún kemur til Íslands. Gera þarf breytingar á skipinu svo það geti þjónað tilgangi sínum. „Þessar breytingar fela m.a. í sér að koma fyrir nýjum þilfarskrana, landfestuvindum, færa til lyftibjörgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan. Gert er ráð fyrir að hefja reglubundnar siglingar á Breiðafirði seinni hluta október mánaðar,” segir á vef Vegagerðarinnar.

Breiðafjarðarferjan Baldur hefur mikið verið í fréttum undanfarin ár vegna bilana.

Fram kemur á vefnum að kaupin komi í kjölfar útboðs. Upphaflega hafi staðið til að leggja af ferjusiglingar á Breiðafirði 2023 en að þeirri ákvörðun hafi verið snúið vegna breytinga á atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum; bæði í fiskeldi og ferðaþjónustu.

Ferjan Röst er smíðuð 1991, tekur 250 farþega, rúmar fimm stóra flutningabíla. Í útboði Vegagerðarinnar um rekstur Breiðafjarðarferju 2023-2026 er miðað við að Röst sigli sömu áætlun og Baldur á ferjuleiðinni Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Flatey – Stykkishólmur. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

 

Deila: