Góð togaraveiði

Deila:

Togarar Síldarvinnslunnar gerðu það gott í liðinni viku að því er fram kemur á vef fyrirtækisins. Þar segir að Gullver hafi landað 82 tonnum á Seyðisfirði síðastliðinn mánudag. Um var að ræða fyrstu veiðiferðina eftir slipp. Þorskur var uppistaða aflans, sem var sóttur út á Glettinganesflak. „Gullver hélt strax aftur til veiða og er að landa á Seyðisfirði í dag 75 tonnum, þar af eru 35 tonn þorskur og 33 tonn ýsa. Fiskurinn fékkst á svipuðum slóðum á Glettinganesflaki.

Vestmannaey landaði í Neskaupstað á mánudaginn 60 tonnum af þorski og ýsu sem fékkst í Berufjarðarálnum. Skipið landaði svo 72 tonnum á Djúpavogi á fimmtudag.

Bergur var á veiðum við sunnanvert landið í liðinni viku. Skipið landaði 70 tonnum í Vestmannaeyjum síðastliðinn sunnudag, það var mest þorskur, ýsa og koli sem veiddist við Pétursey og Höfða.

Bergur landaði svo á miðvikudag 66 tonnum í Grindavík og var uppistaða aflans gullkarfi og ufsi sem veiddust við Eldey og Fjöllunum.

Deila: