Sigurður til liðs við Síldarvinnsluna

Deila:

Síldarvinnslan hefur ráðið Sigurð Álfgeir Sigurðarson, löggiltan endurskoðanda, til starfa hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins. Þar kemur fram að Sigurður er ráðinn sem yfirmaður reikningshalds Síldarvinnslusamstæðunnar en hann mun meðal annars hafa umjón með árshlutauppgjörum og ársuppgjörum ásamt því að sinna margvíslegum öðrum störfum á fjármálasviði. „Sífellt eru gerðar meiri kröfur til fyrirtækja um að þau hafi handbærar margvíslegar upplýsingar um starfsemi sína og mun Sigurður hafa umsjón með samantekt slíkra upplýsinga sem bæði eru fjárhagslegs eðlis og ófjárhagslegs,” segir í fréttinni.

Fram kemur að Sigurður sé Strandamaður og hafi alist upp við sjávarútveg. „Ég ólst upp við sjósókn yfir sumartímann á Ströndunum og fékk snemma mikinn áhuga á öllu sem tengdist sjávarútvegi. Ég tók til dæmis pungapróf þegar ég var 13 ára gamall þó ég fengi ekki formleg réttindi fyrr en ég varð 18 ára. Ég hef átt bát í mörg ár og notið þess að fara á sjó á honum. Hér fyrir austan hef ég unnið að endurskoðun og ráðgjöf hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og þekki því til þannig reksturs. Meðal annars hef ég sinnt störfum sem tengjast Síldarvinnslunni og verið í góðu sambandi við forsvarsmenn fyrirtækisins,“ er haft eftir honum.

Nánar má lesa um ráðninguna hér.

Ljósmynd: Smári Geirsson

Deila: