Betri afkoma af strandveiðum

Deila:

Strandveiðitímabilinu er lokið. Í ár veiddust rúmlega tíu þúsund tonn, 5% meira en í fyrra. Mikil bræla í ágúst dró úr veiðunum sem gengu nánast áfallalaust. Aflahæsti báturinn er gerður út frá Djúpavogi en 629 bátar voru með leyfi til veiða í ár. Strandveiðimenn vilja lengja veiðitímabilið.

Í sumar voru veidd 9.162 tonn af þorski, 829 tonn af ufsa og 73 tonn af karfa. Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segist ánægður með veiðarnar. „Þó við höfum ekki náð þeim afla sem við höfum heimild til að veiða þá var afkoma veiðanna mun betri en á undankomnum árum útaf hækkandi verði og lækkun á veiðigjaldi“ segir Örn í samtali við ruv.is.

Birta SU aflahæsti báturinn

Sérstaklega finnst honum ánægjulegt að veiðarnar gengu nánast áfallalaust, þó verulega hafi dregið úr veiðum í ágúst, í endalausri brælu. Aflahæsti báturinn er Birta SU, sem er gerður út frá Djúpavogi, með 52.425 kg. Á eftir honum er Ásbjörn SF, frá Hornafirði, með 47.105 kg. Alls voru 629 bátar með leyfi í ár. Flestir voru á A-svæði, 233 bátar. 132 voru á B-svæði, 122 á C-svæði og 139 á D-svæði.

Veiðiheimild ekki fullnýtt

82,5% af veiðiheimildum ársins voru nýtt og 1.938 tonn eru því óveidd. „Og við reiknum með því að það verði vel tekið í þá kröfu Landssambandsins að færa það yfir á næsta ár og auka veiðiheimildir til strandveiða sem því nemur árið 2020,“ segir Örn. Strandveiðar eru leyfðar frá 1. maí til 31. ágúst og vilja strandveiðimenn lengja veiðitímabilið. Örn segir það verða skoðað á haustfundum hjá félögunum þar sem stefnan verði mótuð. Þeir horfi bjartsýnir til frekari þróunar á strandveiðikerfinu.

Reynslan sýni að veiðiheimildir séu nægar

Miklar gagnrýnisraddir heyrðust þegar ný lög um strandveiðar voru samþykkt í fyrra. Veiðarnar takmarkast við 12 veiðidaga á mánuði og hefur sjávarútvegsráðherra heimild til að stöðva veiðar þegar veiðiheimildin er fullnýtt. Sú heimild var áður hjá Fiskistofu. Örn segir stjórnvöld ekki hafa tekið nægt tillit til þess að veður stjórni algjörlega veiðum þessara báta. Þetta séu handfæraveiðar, leyfilegur dagsskammtur sé takmarkaður og tímafjöldi sömuleiðis. Það séu nægar takmarkanir fyrir og því óþarfi að hafa þessa stöðvunarheimild í lögunum. Hann segir síðustu tvö veiðitímabil sýna að þær veiðiheimildir sem ætlaðar eru til strandveiða séu nægar.

 

Deila: