80 umsagnir um lagareldi

Deila:

Alls hafa borist 80 umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda við heildstæða stefnu fyrir uppbyggingu og umgjörð lagareldis á Íslandi. Stefnan nær til ársins 2040 og hefur að markmiði að skapa lagareldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi, eins og það er orðað í kynningu.

„Megináherslur stefnunnar eru að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem koma í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfi sitt s.s. á vistkerfi eða villta stofna. Tryggja þarf að staða dýravelferðar og sjúkdóma sé með sama hætti og best þekkist í lagareldi á heimsvísu,” segir meðal annars.

Í umsögnunum kennir ýmissa grasa og ljóst er að skoðanir eru mjög skiptar. Þær má lesa hér.

34 athugasemdirnar eru samhljóða og hafa borist frá einstaklingum. Þar segir:

Sem Íslendingur sem er annt um náttúru landsins krefst ég þess að stjórnvöld banni laxeldi í opnum sjókvíum. Sjókvíaeldi mengar firði okkar, eitrar lífríki sjávar og ógnar tilveru íslenskra laxastofna. Fjöldamörg umhverfisslys hafa nú þegar átt sér stað undir eftirliti íslenska ríkisins, má þar m.a. nefna laxa- og fiskilúsafár, gríðarleg afföll og nýverið slepping þúsunda frjórra norskættaðra eldislaxa.

Þrátt fyrir allt er þó ekki of seint að koma í veg fyrir að skaðinn verði óafturkræfur. Ég hvet ykkur til þess að innleiða tafarlausa stöðvun á stækkun iðnaðarins og hætta laxeldi í opnum sjókvíum.

Í millitíðinni þarf að grípa til hagnýtra varúðarráðstafana til að forðast frekari skaða á ósnortnu umhverfi og dýralífi Íslands. Þörf er á að innleiða tafarlaust eftirfarandi öryggisráðstafanir, byggðar á leiðbeiningum NASCO líkansins, fyrir alla núverandi starfsemi:

1. Ekkert umburðarlyndi (e. zero tolerance) fyrir slysasleppingum. Þegar slepping á sér stað, sama af hvaða stærðargráðu, mun rekstraraðilinn sem ábyrgur er fá framleiðsluheimild sína tafarlaust og varanlega skerta. Að sama skapi skal ábyrgðaraðili taka á sig allan kostnað af mótvægis- og neyðaraðgerðum.

2. Allur lax í opnum sjókvíum skal vera ófrjór. Við verðum að tryggja að eldislax geti ekki blandast villtum íslenskum stofnum og mengað genamengi þeirra.

3. Halda þarf lús í skefjum í sjókvíaeldi. Heildarfjöldi þeirra má ekki fara yfir 0,1 lús á hvern fisk að meðaltali, vegna þeirrar hættu sem það skapar villtum stofnum. Ef að lúsin fer yfir þau mörk þarf tafarlaust að skerða framleiðsluheimildir.

4. Þörf er á að auka gagnsæi. Almenningur á skilið að vita hvað er að eiga sér stað undir yfirborði sjókvíanna. Öll aðstaða eldisfyrirtækjanna þarf að vera reglulega skoðuð og metin af óháðum aðilum á kostnað rekstraraðila. Allar niðurstöður þessa opinbera eftirlits skulu vera birtar opinberlega í rauntíma. Allt eftirlit á að vera óháð og óvænt og hverfa þarf að öllu leyti frá innra eftirliti.

Þetta eru lágmarkskröfur sem nauðsynlega þurfa að vera til staðar til þess að koma í veg fyrir þann skaða sem þessi mengandi iðnaður hefur haft, hefur nú og mun halda áfram að bera í för með sér.

Deila: