Nýr Baldur til sýnis í Stykkishólmi

Deila:

Formleg móttaka nýrrar Breiðafjarðarferju verður föstudaginn 17. nóvember í Stykkishólmi. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Íbúum og öðrum áhugasömum gefst á milli klukkan 15 og 17 tækifæri til að þiggja kaffi og kökukr um borð í skipinu og skoða farþegarými skipsins. Íbúar norðan megin Breiðafjarðar fá tækifæri til að skoða ferjuna í Brjánslæk, sunnudaginn 19. nóvember milli klukkan 17:00 og 18:00.

Vegagerðin keypti ferjuna Röst af Torghatten Nord í Noregi en hún sigldi í norður Noregi, á ferjuleiðinni, Svolvær-Skrova-Skutvik. Skrifað var undir kaupsamning 15. september 2023 en kaupverð ferjunnar var 3,5 milljónir Evra.

„Stærsti kostur nýju ferjunnar er að hún er með tvö aðskilin framdrifskerfi þ.e. hún er útbúin tveimur aðalvélum og tveim skrúfum sem stóreykur öryggi farþega. Einnig er hún með öfluga veltiugga sem gerir siglinguna þægilegri og farþegarými er allt á sama dekki. Þá er hún 12 árum yngri en núverandi ferja og aðstaða fyrir farþega er mun þægilegri,” segir á vef Vegagerðarinnar.

Nýi Baldur tekur 250 farþega og rúmar fimm stóra flutningabíla.

Deila: