Skipstjóri og stýrimaður látnir fara

Deila:

Samið hefur verið um starfslok skipstjóra og stýrimanns á Huginn VE í Vestmannaeyjum. Þeir stýrðu skipinu þegar akkeri skipsins skemmdi vatnslögn Eyjamanna. Óttast er að vatnsskortur verði í Vestmannaeyjum í vetur. Vísir greinir frá þessu.

„Við gerðum samkomulag við þá um að þeir hættu,“ er haft eftir Sigurgeiri Brynjari Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar.

Fram kemur að akkerið úr skipinu sé enn á hafsbotni, fast í lögninni. Lögnin mun vera skemmt á um 300 metra kafla.

Ríkislögreglustjóri Almannavarna lýsti í morgun yfir hættustigi almannavarna vegna þessa. „Þessi staða gerir möguleika á bráðabirgðaviðgerð erfiða. Eina varanlega lausnin er ný lögn. Mikilvægt er að vinna mat á afleiðingum sem takmarkað rennsli vatns eða algert rof hefði á íbúa og starfsemi í Vestmannaeyjum og hrinda af stað mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist,“ segir í tilkynningu.

Deila: