Öflugri drónar vakta togara

Deila:

„Stærri og langdrægari dróni er síðan næsta skref í þessari þróun þar sem við höfum ávallt stefnt að því að geta haft eftirlit með þessum hætti með öllum útgerðarflokkum,” segir Elín Björg Ragnarsdóttir, sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu í svari við fyrirspurn Auðlindarinnar.

Fiskistofa mun um áramótin fá í hendur nýjan dróna sem hefur að sögn Elínar flugþol í um hálfan dag án þess að þurfa á hleðslu að halda. Dróninn getur flogið á 100 kílómetra hraða og er búinn öflugri myndavél sem gefur tækifæri til að taka myndir úr mikilli fjarlægð án þess að það dragi úr gæðum. Hún segir að með drónanum megi tegundagreina fiska úr mikilli fjarlægð. Elín reiknar með að dróninn verði kominn í fulla notkun á fyrsta ársfjórðingi nýs árs.

„Fram til þessa höfum við að mestu haft drónaeftirlit á grunnslóð þó við höfum einnig haft eftirlit lengra úti með því að fljúga drónum frá varðskipi í einhverjum tilvikum. Stofnunin hefur setið undir þeirri gagnrýni að drónaeftirlitið beinist fyrst og fremst að smábátum og þeim sem stunda veiðar nærri landi. Að vissu leiti má taka undir þá gagnrýni en þó með þeim fyrirvara að þarna er um að ræða fremur nýtt eftirlit sem hófst á árinu 2021 og hefur stofnunin verið að prófa sig áfram og meta ávinning af þessari tegund eftirlits ásamt því að þjálfa mannskap og öðlast reynslu. Stærri og langdrægari dróni er síðan næsta skref í þessari þróun þar sem við höfum ávallt stefnt að því að geta haft eftirlit með þessum hætti með öllum útgerðarflokkum. Teljum við að með nýjum dróna náum við því markmiði. Þróun búnaðar er mjög hröð og ný tækifæri í eftirliti samhliða því,” segir Elín í svarinu.

Dróninn er keyptur frá hollenska fyrirtækinu Delta Quad en stofnunin er í samstarfi við það fyrirtæki um enn frekari þróun búnaðar við fiskveiðieftirlit. Hann er búinn hitamyndavél og hefur því hæfni til að taka myndir í myrkri. „Það er því ljóst að með notkun nýrra tækja opnast tækifæri í eftirliti með togurum og þeim sem stunda veiðar fjarri landi,” áréttar Elín.

Hún bendir á að gögn sýni að dregið hafi úr brottkasti á miðunum frá því drónaeftirlit Fiskistofu hófst.

Deila: