Nýr samskiptastjóri hjá Hafró

Deila:

Dóra Magnúsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf samskiptastjóra Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna. Þetta kemur fram á vef Hafró. Þar segir að með ráðningunni sé stofnuninni gert kleift að fylgja stefnu sinni um aukna áherslu á á upplýsingamiðlun, samskipti og almannatengsl.

„Dóra hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði samskipta og almannatengsla. Hún hefur einnig reynslu af markaðsmálum, vef-, verkefna- og viðburðastjórnun sem og blaðamennsku og leiðsögn. Dóra er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (MPA), gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og viðskipta- og markaðsfræði frá Interactive Marketing and Multimedia Academy í Danmörku auk þess að vera með B.Sc.gráðu í landfræði frá HÍ,” segir í tilkynningunni.

Áður en Dóra hóf störf hjá Hafrannsóknarstofnun starfaði hún sem fræðslu- og kynningarstjóri hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð. Þar bar hún ábyrgð á námskeiðahaldi stofnunarinnar og öðrum fræðslumálum ásamt kynningar- og vefmálum, samfélagsmiðlum, þróun rafrænnar miðlunar og almannatengslum.

Deila: