Rækjan skiptir fyrr um kyn
Um síðustu aldamót lækkuðu vísitölur innfjarðarrækjustofna fyrir vestan og norðan land. Á sama tíma fækkaði árgöngum í stofnunum, rækja skipti fyrr um kyn og jafnframt hafði hámarksstærð hennar minnkað.
Vitað er að frjósemi er minni hjá smærri einstaklingum þar sem þeir geta borið færri egg og því vaknaði upp sú spurning hvaða áhrif þessar breytingar myndu hafa á heildareggjaframleiðslu stofnanna.
Þetta var kannað í greininni Effects of changes in female size on relative egg production of northern shrimp stocks (Pandalus borealis) sem Ingibjörg G. Jónsdóttir, sérfræðingur á botnsjávarlífríkissviði, birti í tímaritinu Regional Studies in Marine Science í lok síðasta árs. Í greininni var reiknað út hver heildareggjaframleiðslan gæti verið miðað við stærðardreifingu stofnsins á hverju ári en þó óháð stofnstærð hans.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að heildareggjaframleiðsla rækjustofnanna minnkaði eftir því sem karldýrin skiptu fyrr um kyn og kvendýrin urðu smærri. Hins vegar var sambandið milli heildareggjaframleiðslu og nýliðunar lélegt og því er líklegt að aðrir þættir, s.s. afrán og hitastig, hafi meiri áhrif á stofnstærð innfjarðarrækju heldur en stærðarsamsetning stofnsins.