Áherslan á ýsu og ufsa

Deila:

Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE hafa fiskað vel að undanförnu og bæði skip lönduðu fullfermi í Eyjum á miðvikudag. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar er rætt við Egil Guðna Guðnason skipstjóra á Vestmannaey, sem segir að þessa dagana sé góð vertíðarveiði. Vel gangi að fá afla í skipin og að stutt sé á milli landana.

„Allt byggist þetta á góðum áhöfnum og við höfum svo sannarlega góða kalla um borð. Við á Vestmannaey erum búnir að fara þrjá túra á sex dögum og alltaf landað fullfermi. Aflinn á þessum sex dögum er vel á þriðja hundrað tonn. Ég hugsa að aflinn sé hátt í 50 tonn á veiðidag. Í síðasta túr vorum við í Háfadýpinu og á Selvogsbanka og allt gekk eins og í sögu. Lögð er áhersla á að fiska ýsu og ufsa en það kemur alltaf einhver þorskur með. Það hefur gengið betur að veiða ufsa núna en síðustu ár. Í ufsanum er mun betri veiði á nóttunni en á daginn en þorskurinn veiðist hins vegar betur á daginn,” segir Egill Guðni.

Deila: