Spyr fyrir hvern arðsemin sé

Deila:

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda spyr í grein á Vísi fyrir hvern arðsemin eigi að vera, sem hljótast á af kvótasetningu grásleppu. Hann bendir meðal annars á að 400 sjálfstæðar útgerðir hafi í dag leyfi til að stunda grásleppuveiðar. Með frumvarpi um kvótasetningu grásleppu verði meirihluta þeirra gert ókleft að stunda veiðarnar.

Greinin er birt hér í heild sinni:

„Kvóta­setning grá­sleppu snýst um að tryggja arð­semi“?

Í frétt RÚV var mikil áhersla lögð á að koma til skila orðum formanns atvinnuveganefndar: „Að tryggja arðsemi í greininni“. Lykilinn að þeim dýrðarljóma sé að finna í frumvarpinu sem hann hefur mælt fyrir og felur í sér að setja grásleppuna í aflamark. Stjórna veiðunum með kvóta á hvern bát, þar sem aflahlutdeild færi eftir veiðireynslu hvers og eins. Rétt er að vekja athygli á að í fréttinni sagði formaðurinnekki enn vera víst að kvótasetning yrði ofan á.

Í máli LS með atvinnuveganefnd 12. mars sl. var vakin athygli á nokkrum torfærum sem nefndin yrði að yfirstíga við ákvörðun um hvort frumvarpið yrði afgreitt til 2. umræðu. Ítrekuð var andstaða LS við frumvarpið sem fram kom í umsögn við það samhliða að bætt vvar við eftirfarandi þáttum.

  1. Fyrir Landsrétti er þjóðin í vörn gegn kröfu Vinnslustöðvarinnar hf. og Hugins ehf. um að fá greiddar bætur vegna kvótasetningar á makríl. Ef allt fer á versta veg kostar það þjóðina á annan milljarð. Auk þess sem niðurstaðan gæti orðið fordæmisgefandi fyrir aðrar stórútgerðir sem leitt gæti til tíföldunar upphæðarinnar.
  2. Nýlegur dómur í Landsrétti sagði seljanda eiga rétt til aflaheimilda í makríl en ekki kaupandi viðkomandi báts. Frumvarpið gæti leitt af sér ómæld vandræði fyrir aðila sem keypt hafa grásleppubáta með veiðireynslu.
  3. Fyrir tveimur áratugum ákvað þv. sjávarútvegsráðherra að kvótasetja smábáta þar sem ákveðinn fjöldi daga voru ígildi veiðiheimilda, eins og nú gildir um grásleppuna. Þá var ákveðið að skipta samkvæmt aflareynslu, en jafnframt að tryggja að allir fengju ákveðið lágmark – 15 tonn af óslægðum þorski.
  4. Í 75. grein stjórnarskrár hins íslenska lýðveldisins segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Alls 400 sjálfstæðar útgerðir hafa rétt til að stunda grásleppuveiðar að atvinnu. Með frumvarpinu er meirihluta þeirra gert ókleif að stunda veiðarnar.

Að mati Hafrannsóknastofnunar er grásleppanekki ofveidd innan núverandi veiðistjórnunarkerfis. Stjórnunin tryggir öllum grásleppubátum jafnmarga daga til veiða. Fullyrða má að almannahagsmunir krefjist þess ekki að þeir séu sviptir þeim rétti.

Í lok fundar atvinnuveganefndar með LS var vakin athygli á nokkrum kostum við núverandi veiðistjórn.

  • Hverju leyfi fylgja jafnmargir dagar til veiða – tryggir jafnræði
  • Veiðarnar bundnar við smábáta – báta minni en 15 brt.
  • Engin veiðiskylda
  • Fjöldi leyfa tryggir nýtingu veiðiheimilda við góð verðtilboð
  • Gefur nýjum aðilum tækifæri á að hefja útgerð
  • Viðheldur áratuga menningu sjávarbyggða
  • Veiðarnar eru sjálfbærar – geta ekki ofveitt stofninn
  • Viðheldur jafnvægi í veiðum smábáta

Við þessi skrif fékk ég símtal frá grásleppusjómanni sem hlýtt hafði á frétt RÚV. Hann spurði: Arðsemi fyrir hvern?

Deila: