Strandveiðimenn hafa áhyggjur af byggðakvóta
Strandveiðifélag Íslands hefur óskað eftir fundi með umhverfis- og samgöngunefnd til að ræða samninga Byggðastofnunar. Frá þessu er grein á Facebook-síðu samtakanna.
Fram kemur að Ríkisendurskoðun sé í þessum töluðu orðum að vinna skýrslu um úthlutun stofnunarinnar á byggðakvótum. Allir samningar Byggðastofnunar séu að renna út á þessu fiskveiðiári, og nú hafi forstjóri Byggðastofnunar boðað til fundar með skömmum fyrirvara um gerð á nýjum langtímasamningum. Félagið telur ekki réttlætanlegt að gera nýja langtímasamninga áður en skýrsla Ríkisendurskoðunar á því verklagi sem verið hefur tíðkað verði gert upp.
Ástæðan er ærin og fjölþætt að sögn Strandveiðifélags Íslands:
1. Byggðakvóta Byggðastofnunar hefur verið úthlutað til erlendra aðila, þ.e. norskra fiskeldismanna.
2. Byggðakvóta Byggðastofnunar hefur í mörgum tilfellum ekki verið landað í þeim byggðum eða aðilum á forsendum byggðanna sem hafa fengið úthlutað m.a. Þingeyri, Flateyri, Grímsey.
3. Afli sem aflað er á forsendum byggðakvóta Byggðastofnunar fer í sumum tilfellum aldrei til viðkomandi byggðar t.d. Þingeyrar, Flateyrar og Grímsey en atvinnusköpun í viðkomandi byggð „uppfyllt“ með óskyldri starfsemi eða alls ekki.
4. Samningar Byggðastofnunar hafa orðið að söluvöru, þ.e. fylgt fiskvinnslu sem seld var aðila sem ekki var aðili að samningi sbr. fiskvinnsla á Bakkafirði..
5. Byggðakvóta er ekki úthlutað beint til útgerða sem hafa aðild að samningum við Byggðastofnun heldur er reglan sú að gerðir séu vistunarsamningar við stórútgerðir um kvótann og hann sé síðan fluttur þaðan til útgerða í byggð sem fær honum úthlutað. Byggðastofnun hefur ekki getað sýnt fram á að viðkomandi heimildir hafi verið fluttar til baka og í hve miklum mæli.
„Strandveiðifélag Íslands hefur þungar áhyggjur af því að frekari langtímasamningar verði gerðir áður en greinargóð úttekt hefur verið gerð á verklagi Byggðastofnunar. Eins þarf það að vera á kristal tæru að þær veiðiheimildir sem Byggðastofnun úthlutar mæti þeim markmiðum sem byggðakvótar hafa. Verðmætin sem úthlutað er í þessum samningum er milljarða króna virði árlega og því mikilvægt að vanda til verka.”