900 milljónir greiddar út í arð

Deila:

Afkoma Vinnslustöðvarinnar 2023 var sú besta í sögu félagsins. Það má að miklu leyti rekja til uppsjávarveiðanna. Loðnuvertíðin í fyrra var sú gjöfulasta í verðmætum frá upphafi vega og verð á mjöli og lýsi hátt á mörkuðum. Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar þann 4. apríl var smþykkt að greiða út 900 milljónir króna í arð til hluthafa. Hagnaður samstæðunnar nam 4,5 milljörðum króna á árinu 2023 en veltan var 35 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í frétt á vef Vinnslustöðvarinnar.

„Langstærsta fjárfesting Vinnslustöðvarinnar á árinu 2023 var kaup á útvegs- og fiskvinnslufyrirtækjunum Ósi ehf. og Leo Seafood ehf. af Sigurjóni Óskarssyni útgerðarmanni og fjölskyldu hans í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin tók formlega við útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE og rekstri Leo Seafood á sumardeginum fyrsta í fyrra. Við kaup félaganna tveggja stækkaði efnahagur VSV-samstæðunnar um liðlega 40% og stöðugildum samstæðunnar fjölgaði um 90. Nú eru stöðugildi í Vinnslustöðinni alls 460, þar af 400 á Íslandi og 60 erlendis,” segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

Meðfylgjandi mynd er frá aðalfundinum í liðinni viku og er af vef Vinnslustöðvarinnar. Á myndinni lyfta glösum Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins og Binni í Vinnslustöðinni.

Deila: