Bjarkey skoðar möguleika vegna strandveiða

Deila:

„Þegar ég fékk bókina á borðið hjá mér áttaði ég mig á því að það er í rauninni fátt sem hægt er að gera sem einhverju skiptir, svona verulega, nema það fari fyrir Alþingi og gerðar verði lagabreytingar.” Þetta sagði Bjarkey Olsen, nýr ráðherra sjávarútvegsmála, í ræðu á Alþingi í gær, þar sem strandveiðar voru til umráða.

Strandveiðar hefjast 2. maí næstkomandi. Potturinn, 10 þúsund tonn, hefur klárast fyrr með hverju árinu. Í fyrra voru veiðar stöðvaðar snemma í júlí, veiðar sem eiga að standa út ágústmánuð.

Bjarkey segist þrátt fyrir þetta vera að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni. „Ég svo sem er að skoða möguleika en ég er ekki viss um að allir átti sig á því að það eru fá lög, held ég hreinlega, eins niðurnjörvuð í sjávarútveginum og um strandveiðar. Reglugerðarbreytingar eru ekki mjög svo auðveldar. Það er ekki hægt að tryggja bæði 48 daga úthald í núverandi lagaumhverfi og það verður bara að segjast eins og er að málið er með þeim hætti í upphafi að það krefst þess að breytingar sem stærri eru þurfa að fara fyrir þingið.”

Hún sagðist líka vilja halda því til haga að sjónarmið innan strandveiðanna væru mjög ólík. „Þó að Landssamband smábátaeigenda (Forseti hringir.) hafi tiltekna skoðun eru póstarnir sem ég hef í mínu pósthólfi þess eðlis að það eru 100 útgáfur af breytingum sem (Forseti hringir.) sjómenn telja að sé hægt að leysa sisvona, sem því miður er bara ekki hægt.”

Deila: