Segir drónaeftirlit hafa dregið úr brottkasti

Deila:

„Talsverður árangur hefur náðst í að minnka brottkast með drónaeftirliti á grunnslóð.” Þetta kemur fram í ávarpi nýs Fiskistofustjóra, Elínar Bjargar Ragnarsdóttur. Ávarpið fylgir ársskýrslu Fiskistofu fyrir árið 2023.

Í ávarpinu fer Elín yfir helstu atriði síðasta starfsárs, svo sem slysasleppingu Arctic Fish og rannsóknir.

„Eftirlit Fiskistofu er nauðsynlegur þáttur í því að íslenskar sjávarafurðir eigi greiða leið inn á verðmætustu markaði. Áhersla hefur verið lögð á áframhaldandi þróun aðferða við rafrænt eftirlit með samkeyrslu og greiningu gagna, sjálfvirkni áhættugreininga og vaktana með það að leiðarljósi að bæta yfirsýn eftirlitsmanna í rauntíma á vettvangi og gera eftirlit markvissara. Þróun sem þessi er mjög mikilvæg í ljósi þess að eftirlitsmönnum á vettvangi hefur fækkað umtalsvert síðast liðin ár vegna aðhaldskrafna í rekstri ríkisstofnana,” segir Elín.

Fram kemur að Fiskistofa hafi hlotið styrk úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til kaupa á nýjum og langdrægum dróna til eftirlits á djúpslóð og var gengið frá þeim kaupum á árinu. Talsverður árangur hefur náðst í að minnka brottkast með drónaeftirliti á grunnslóð, eins og sjá má á ársskýrslunni, og verður áhugavert að fylgjast með þróun drónaeftirlits á djúpslóð.

 

Deila: