„Sjávarútvegurinn er spennandi atvinnugrein“

Deila:

„Það gefur auga leið að enginn endist í sama starfinu vel yfir þrjá áratugi nema það veiti gleði og fólk hafi gaman af,“ segir Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood, sem er félag um sölustarfsemi Samherja og annast sömuleiðis sölu afurða annarra framleiðenda. Hún hefur starfað við sölu á afurðum fyrirtækisins í 34 ár, hóf störf í júlí árið 1990, „á þriðjudegi ef ég man rétt, því hér byrjar enginn á mánudögum,“ segir hún og vísar til þess að hjátrú er gjarnan rík innan sjávarútvegsins.

Fyrirtækið hefur tekið stakkaskiptum frá því hún hóf störf, örfáir starfsmenn voru á skrifstofu félagsins á þessum tíma. „Ég held við höfum verið þrjú eða fjögur fyrir utan eigendurna.“ Ingibjörg, Inga eins og hún er ævinlega kölluð, ólst upp á Akureyri. Hún hélt til náms í Reykjavík að loknu stúdentprófi árið 1981, fór í uppeldisfræði við Háskóla Íslands og stefndi á að verða kennari. „Ég var einstæð móðir með ungan son og eins og títt er voru blankheitin allsráðandi. Endalaus leit að leiguíbúðum og sífellt verið að færa sig á milli eftir því hvar íbúð bauðst hverju sinni og drengurinn að skipta um skóla svo að segja á hverju hausti.“

Sá ekki fyrir sér að fá vinnu við hæfi fyrir norðan

„Einhverju sinni þegar þessi staða var eina ferðina enn uppi á teningnum spyr mamma hvort ekki sé betra að flytja bara aftur norður,“ segir Inga en henni leist ekki alls kostar á slíkar hugmyndir. Sá ekki fyrir sér að fá vinnu við hæfi. „Ég nefndi við mömmu að ég ætlaði ekki að fara að vinna í kjörbúð hjá KEA!“ segir hún en velti þó stöðunni vel fyrir sér og sá að vissulega yrði minni barningur fyrir einstæða móður að búa norðan heiða með sterkara bakland. Ein vinkvenna hennar starfaði á þessum tíma hjá Samherja.

Vegna aðstæðna í fjölskyldunni sá hún fram á að þurfa að hætta en benti Ingu á að sækja um hennar starf. „Ég gerði það, fékk stöðuna og hef verið hér síðan,“ segir hún. Heilmargt breytist á ríflega þremur áratugum og segir Inga að fyrirtækið hafi vaxið jafnt og þétt og sé allt annað en það var á fyrstu árunum. Starfið hafi líka breyst í áranna rás og er harla ólíkt því sem var. Sárafáir unnu á skrifstofunni sem dæmi og nefnir hún að gengið hafi verið í öll störf sem inna þurfti að hendi.

Faxtækin voru bylting

„Helsta breytingin er sú að flest er orðið rafrænt í dag, við náum svo að segja að klára flest öll mál í gegnum tölvu, sem áður þurfi að leysa með öðrum hætti,“ segir hún. Meðal annars hafi hún gjarnan farið í banka, í tollinn eða til sýslumanns til að sinna sínum störfum, oftar en ekki með mikið magn pappíra í fórum sínum. Alls konar skjöl fylgdu með þegar kom að sölu afurða sem dæmi og þau þurfti að meðhöndla með viðeigandi hætti. „Samskiptin voru öðruvísi áður fyrr en þá sinnti maður erindum með því að fara út og tala við fólk. Það var ósköp notalegt,“ segir hún. Farsímar voru vart komnir til sögunnar og faxtæki voru að ryðja sér til rúms sem mikil nýjung. „Það þótti alveg frábært að geta sent skjöl með faxi á milli landshluta og jafnvel milli landa. Það eru mikil verðmæti í húfi þegar kemur að sölu afurða og því mikið lagt upp úr að öll pappírsvinna sé rétt og gangi snurðulaust fyrir sig,“ segir Inga.

Hún rifjar upp að á fyrstu árum sínum í starfi og áður en tækninýjungar höfðu komið fram var hún einhverju sinni send með verðmæt frumgögn í flugi til Kaupmannahafnar – flaug með gögnin þangað frá Reykjavík, afhenti þau á Kastrupflugvelli og flaug síðan til baka samdægurs. „Það var mjög mikilvægt að koma þessum pappírum á leiðarenda og þetta var í það skiptið eina færa leiðin,“ segir hún og bætir við að lífið nú þegar allt er stafrænt og engu skiptir hvar í heiminum fólk er statt, sé annars konar og einfaldara að mörgu leyti. „Vinnuumhverfið er allt annað og mun þægilegra.“

Nánar er rætt við Ingibjörgu í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: