Ávirðingar um félagsleg undirboð

Deila:
„Frystitogarasjómenn hafa aldrei þurft að landa aflanum sjálfir. Með þessu er brotið blað í réttindamálum íslenskra sjómanna. Áratuga barátta forvera okkar er brotin á bak aftur. Sjómenn á togurum eiga frí við löndun eins og skýrt er í kjarasamningi og verið hefur í áratugi.” Þetta kemur fram í yfirlýsingu Sjómannasambands Íslands vegna ákvæðis í kjarasamningi SFS og Sjómannafélags Íslands. Þar er kveðið á um vinnuskyldu skipverja á Þerney RE, nýtt frystiskip Brims, þegar skipið er í landi.
Sambandið segir að með þessu sé verið að hafa réttindi af sjómönnum og stunda félagsleg undirboð. Áratuga hefð sé fyrir því að skipverjar sjái ekki um löndun aflans.
„Þessi svokallaði samningur var borinn undir atkvæði áhafnarinnar með fulltingi Sjómannafélags Íslands. Áhöfnin samþykkti gerninginn sem er auðvitað með hreinum ólíkindum og vafi leikur á hvers vegna. Brim hf, SFS og Sjómannafélag Íslands, hafa nú staðfest samninginn fyrir sitt leiti. Samningurinn gengur m.a. út á að sjómennirnir landi aflanum sjálfir, fyrir smánarlaun. Áratugum saman hafa Íslenskir togarasjómenn átt frí við löndun.“

Deila: