Aflaverðmætið ríflega fimm milljarðar

Deila:

Aflaverðmæti þorsks á nýyfirstaðinni strandveiðivertíð nam rétt ríflega fimm milljörðum króna. Flotinn veiddi rétt tæplega 12 þúsund tonn af þorski á vertíðinni. Meðalverðið á mörkuðum þegar kemur að óslægðum fiski á handfærum nam rétt liðlega 425 krónum, á tímabilinu frá 1. maí til 17. júlí. Margfeldið af þessum tölum hleypur á fimm milljörðum og 51 milljón betur.

Við þessa upphæð bætist ufsi og aðrar tegundir, en þær eru smámunir í samanburði við verðmæti þorsksins. Aflahæstu bátarnir í þorski veiddu um 26 tonn á vertíðinni. Aflaverðmætið hleypur í þeim tilfellum á um 11 milljónum króna.

756 bátar lönduðu strandveiðiafla á vertíðinni. Ef aflaverðmætinu er dreift á þann fjölda sést að meðalbátur veiddi þorsk fyrir um 6,7 milljónir króna á vertíðinni.

 

Deila: