Fullfermi af karfa

Deila:

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi af karfa í Eyjum í gærmorgun, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.

Þar er rætt við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra.

„Við fengum karfann á Reykjanesgrunni og í Skerjadýpinu og það gekk vel að veiða. Við vorum að veiðum einungis í einn og hálfan sólarhring. Þetta er fínasti karfi og hann fer beint í útflutning. Veðrið var ekkert til að væla yfir en það var kaldi allan tímann. Við héldum til veiða strax að löndun lokinni og nú á að veiða ýsu, þorsk og ufsa. Við erum komnir á Höfðann og byrjaðir veiðar. Stefnt er að því að landa á miðvikudagskvöld og síðan er þjóðhátíð á dagskrá. Við gerum ráð fyrir að halda á ný til veiða á mánudag að lokinni þjóðhátíðinni,” segir Birgir Þór.

Deila: