Lakari afkoma Eimskips

Deila:

4,4% samdráttur varð á tekjum fyrstu sex mánðaða ársins hjá Eimskip, miðað við árið á undan. Tekjurnar námu 405,5 milljónum evra. Rekststrakostnaður hækkar á sama tímabili um 9,8 milljónir evra miðað við fyrra ár.

Þetta kemur fram á vef Eimskips en þar er árshlutauppgjör kynnt. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 8,4 milljónum evra samanborið við 29,5 milljónir evra í hagnað á sama tímabili 2023.

Haft er eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni forstjóra í frétt á vef fyrirtækisins að afkoma annars fjórðungs 2024 hafi verið ágæt og umsvif í rekstinum hafi aukist í kjölfar krefjandi fyrsta ársfjórðungs. Lækkun afkomu megi nær alfarið rekja til lakari afkomu af rekstri gámasiglingakerfisins.

„Við höfum lagt ríka áherslu á kostnaðaraðhald, en verðbólguþrýstingur og launahækkanir undanfarinna ára hafa gert það að verkum að aðhaldsaðgerðir okkar hafa fyrst og fremst dregið úr kostnaðarhækkunum, í stað þess að stuðla að lægri heildarkostnaði. Á tekjuhliðinni var ánægjulegt að sjá útflutningsmagn frá Íslandi aukast á milli ára en vegna breyttrar samsetningar farms lækkuðu meðalflutningsverð lítillega. Á hinn bóginn var samdráttur í ákveðnum vöruflokkum í innflutningi til Íslands en þar ber helst að nefna bíla og byggingarvöru á sama tíma og vöruflokkar á borð við matvæli og aðrar neysluvöru héldust stöðugar í magni. Það var vissulega viðbúið að sjá samdrátt í þessum vöruflokkum í ljósi langvarandi tímabils hás vaxtastigs á Íslandi, en við erum vongóð um að Seðlabankinn hefji slökun á peningastefnunni áður en þessi minnkun í eftirspurn breiðist yfir í aðra vöruflokka sem gæti valdið óþarflega harðri lendingu hagkerfisins,” er haft eftir forstjóranum.

Sjá nánar hér.

Deila: