Áforma stórt laxeldi í Fjallabyggð

Deila:

Til stendur að ala ófrjóan lax Fjallabyggð. Að baki verkefninu stendur Róbert Guðfinnsson, stofnandi Genís og einn eigenda Hólshyrnu. Til stendur að framleiða 20 þúsund tonn á ári og velta þannig um 26 milljörðum árlega. Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Fjárfestingin hleypur á 20 milljörðum króna en auk þess þarf að verja 10 milljörðum í lífmassa. Áætlanir gera ráð fyrir að fimm ár taki að koma eldinu á koppinn, eftir að leyfi hafa fengist.

Óformin gera ráð fyrir þríþættu eldi; seiðaeldi á Siglufirði, landeldi í Ólafsfirði og áframeldi í sjókvíum í fjörðum á Tröllaskaga.

Fram hefur einnig komið að sjö nærliggjandi sveitarfélögum hafi verið boðinn hlutur í félaginu endurgjaldslaust. Það heitir Kleifar fiskeldi. „Þannig munu sveit­ar­fé­lög­in sem gefa samþykki sitt fá 10,1% af öll­um arðgreiðslum fé­lags­ins um ókomna framtíð. Við ætl­um að tryggja það að sveit­ar­fé­lög­in fái sinn skerf og að ekki ger­ist aft­ur það sama og þegar kvóta­kerfið í sjáv­ar­út­vegi var end­ur­skipu­lagt með til­heyr­andi hagræðingu, að sveit­ar­fé­lög­in sátu eft­ir tekju­laus,“ er haft eftir Ró­berti.

Deila: