Erum að sigla inn í samdráttarskeið

Deila:

Bergþór Gunnlaugsson, annar skipstjóra á frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni GK, telur að nú sé að hefjast samdráttarskeið í þorskveiðum, líkt og var á tíunda áratug síðustu aldar. Hann segir litið sem ekkert æti vera fyrir fiskinn á Vestfjarðamiðum. Hann hefur stundað togveiðar í 36 ár og er öllum hnútum kunnugur. Bergþór bendir á að upp úr 1990 hafi þorskafli á úthaldsdag togara verið 7,3 tonn að meðaltali á ári, en nú þyki það lélegt að fara niður fyrir 20 tonn á dag.  En við byrjum á því að ræða um togarann, sem er næst stærsta bolfiskveiðiskip landsins.

„Þorbjörn ákvað á haustmánuðum fyrir ári að festa kaup á frystitogaranum Sisimiut frá Grænlandi, sem var upphaflega Arnar HU smíðaður fyrir Skagstrendinga. Skipið var svo afhent Þorbirni í júní á þessu ári. Skipið var smíðað 1992. Hann var byltingakenndur togari þegar hann kom til landsins á sínum tíma. Hann er það í raun enn þann dag í dag. Þetta er alveg feiknagott skip. Skrokkurinn góður og aðstaða á millidekki og aðstaða fyrir áhöfn er alveg til fyrirmyndar. Greinilega smíðað af miklum rausnarhug á sínum tíma,“ segir Bergþór og heldur áfram.

Bergþór Gunnlaugsson skipstjóri er ánægður með að geta verið með tvö troll undir á Tómasi Þorvaldssyni.

Með tvö troll undir í einu

„Grænlendingar breyttu honum að mig minnir árið 2002 þannig að hann gæti dregið tvær vörpur samtímis með því að bæta við þriðju togvindunni. Það sem komið er af okkar reynslu af skipinu þá ræður hann alveg leikandi við þetta. Í ljósi þess er maður svolítið hugsi yfir öllum þessum nýsmíðum sem eru að koma til landsins í dag að þau skuli ekki hafa verið útbúin til þess að draga tvær vörpur. Það sem kemur manni hvað mest á óvart er hvað veiðigetan eykst við þetta með tiltölulega lítilli aukningu á olíu. Ég held því, til framtíðar litið, ég tala nú ekki um þegar afli er að dragast saman, að flest verði tveggja vörpu skip.

Þegar Grænlendingar gerðu hann út undir nafninu Sisimiut, var hann eingöngu á grálúðu í heilfrystingu eða eingöngu á þorski í flakafrystingu. Frystigetan er upp á um það bil 55 tonn brúttó af grálúðuafurðum. Við höfum verið að læra á þetta allt og erum að sækja svolítið öðru vísi en þeir hafa gert. Við erum meira í blönduðum afla og töluvert í karfa og ódýrari tegundum eins og gulllaxi. Við sjáum því að breytinga er þörf hjá okkur til að ná betri afköstum í gegnum vinnslulínuna, en flakalínan gengur mjög vel. Við gerðum okkur alveg grein fyrir þessu, þegar við vorum að skoða skipið á Grænlandi, en það var ákveðið að byrja með hann eins og þeir voru að nota hann og breyta eftir þörfum til að geta unnið allar þessar tegundir sem við erum að veiða. Það eru þá karfi, grálúða, þorskur, ýsa og ufsi og fleira.

Fiskimjölsverksmiðja hugsanleg

Þeir voru með 34 menn í áhöfn, en við ákváðum að halda þessum hefðbundna fjölda sem er á öllum frystitogurum, nema Sólbergi, að hafa 26 manns í áhöfn og þá eru 10 karlar á vakt í vinnslunni. Þegar Skagstrendingur lét smíða skipið á sínum tíma var í honum mjöllest. Grænlendingarnir breyttu henni í frystilest. Það gæti breyst því ég veit að Þorbjörn er í viðræðum við Héðinn um hugsanlega niðursetningu á fiskimjölsverksmiðju.

Skipið hefur reynst afskaplega vel. Hann togar mjög vel og fer vel með mannskapinn í þessum veðraham sem stundum er hér við Íslandsstrendur. Hann er 67 metrar að lengd og 14 metra breiður. Þetta er næst stærsta bolfiskveiðiskip landsins í dag, aðeins Sólbergið er stærra. Það er í honum 4.080 hestafla vél og skrúfan er stór, 3,85 metrar og togkraftur á bilinu 55 til 60 tonn. Það er alveg ágætt fyrir það sem við erum að sækja hér á Íslandsmiðum. Upprunalegu spilvindurnar eru enn í honum, 40 tonna lágþrýsti glussavindur frá Brattvag. Miðvindan er svo frá Naust Marine í Hafnarfirði, 47 tonna Ibercisa rafmagnsvinda. Við getum verið með fjögur troll undirslegin tilbúin á dekkinu, en erum aðeins með þrjú, það eru tvíburatrollin og eitt stórt til viðbótar.“

Með gott hol á Gnúpnum.

Haustbrælurnar byrjaðar

Til að gefa mynd af úthaldi frystitogara lýsir Bergþór veiðiferð í haust: „Í þeirri veiðiferð voru haustbrælurnar byrjaðar og við þurftum að hinkra hér í Grindavíkurhöfn því við komumst ekki út vegna veðurs. Þá var ljóst að stutt væri í næstu lægð svo við byrjuðum á miðunum hérna á suðvesturhorninu út af Grindavíkurdýpinu í karfa og gulllaxi og fórum austur í Háfadýpi. Það var bara nokkuð góð veiði. Þegar svo fór að lægja fyrir vestan fórum vestur. Það var lítið í boði af ufsa í síðustu veiðiferð svo við reyndum fyrir okkur í grálúðu á þessum hefðbundnu miðum sem við höfum verið að sækja í gegnum árin, en þar var lítið af lúðu. Við fórum svo í svokallaðan Norðurkant, norður af Hornbjargi. Maður var mjög ánægður þegar ljósin kveiktu en þegar við hífðum voru það 15 tonn, en bara eitt tonn af lúðu, hitt var þorskur. Við tókum annað hol þarna, en það var lítið að fá af grálúðu, bara þorskur.

Við erum yfirleitt að blanda þessar veiðiferðir í öllum afla. Við vorum með eitthvað rúmlega 200 tonn af þorski, svo vorum við í ýsu og karfa og enduðum veiðiferðina á Hampiðjutorginu vestur af Bjarginu. Þar var djúpkarfaveiði í tvo til þrjá daga og reyndum aðeins við grálúðu þar líka, en hún vildi nú ekki gefa sig. Veiðiferðin hjá okkur var um 22 sólarhringar og aflinn 622 tonn upp úr sjó og verðmætið 210 milljónir. Maður sá það vel hve mikið aflinn jókst með tveimur trollum undir. Ég segi ekki að muni helmingi en það má segja að stuðullinn sé 1,5 til 1,8 og olíunotkunin jókst um 100 til 120 lítra. Það kom mér á óvart að það skyldi ekki vera meira.“

Ekki með innkaupalista

Sum skip fara útí hverja veiðiferð með „innkaupalista“ frá útgerðinni og fiska upp í hann. Bergþór segir svo ekki vera hjá þeim. Þeir fái í upphafi fiskveiðiárs uppgefinn heildarkvóta fyrir skipið frá útgerðinni og þeir ráði hvernig þeir taki hann. Þannig þýði ekkert að koma að áliðnu fiskveiðiári og væla út meiri heimildir í einhverjum tegundum. Þeir verði bara að haga sókninni eftir úthlutun og beri ábyrgð á það gangi upp. Því hafi það til dæmis verið fyrirframákveðið í þessari veiðiferð að tekin yrðu 200 tonn af þorski og bland af öðru og það hafi tekist ágætlega. En svo séu þeir alltaf að sækjast eftir grálúðu og djúpkarfa og gangi það vel eigi þeir þorskinn til góða í plan B. „Þetta hefur verið svona öll árin hjá Þorbirninum og mér finnst það ágætt, en nú eru 20 ár síðan ég byrjaði að starfa hjá þeim. Það er gott að vinna hjá þeim og samskiptin góð og hreinskiptin.“

Tómas Þorvaldsson og Gnúpur við bryggju í heimahöfn í Grindavík.

Vantar æti á Vestfjarðamiðum

Við ræðum svo aðeins um þorskinn, en töluvert hefur dregið úr veiðinni. „Maður hefur skynjað það undanfarin tvö ár, að við séum að ganga inn í eitthvert samdráttarskeið. Núna á haustmánuðum hefur maður orðið áþreifanlega var við það, sérstaklega á Vestfjarðamiðum. Að vísu hefur verið góð þorskveiði fyrir austan, enda hefur síld verið þar á ferðinni. Á Vestfjarðamiðum er hins vegar lítið sem ekkert æti, það er engin loðna eins og oft hefur verið, einhver dreif að ganga inn á miðin. Þessir haustmánuði, sérstaklega síðasti túr eru eiginlega búnir að minna mann á ganginn fyrir um 20 til 30 árum, þegar lítið var af þorski. Þá voru þessir haustmánuði mjög lélegir og þetta haust hefur líkst svolítið ástandinu, þegar samdrátturinn varð. Við höfum verið góðu vanir. Fiskiríið hefur verið mjög gott í mjög langan tíma, þar sem menn hafa getað gengið að þorskinum sem vísum, en það er ekki þannig í dag. Í síðasta mánuði var fiskiríið á Vestfjarðamiðum mjög gloppótt. Þegar sem minnst var af þorskinum upp úr 1990 var meðalþorskafli á togara á úthaldsdag 7,3 tonn á ársgrundvelli. Nú eru menn vælandi ef þetta fer undir 20 til 30 tonnin á dag. Því miður hef ég það á tilfinningunni að samdráttarskeið sé að hefjast. Nú hefur verið dregið verulega saman í ýsunni og grálúðan er í lægð, en gullkarfinn stendur nokkuð vel. Ufsinn er svo eiginlega óútreiknanlegur.“

Bergþór segir að við sunnanvert landið hafi sjórinn verið að hlýna og norðurfrá  að hluta til líka og það skýri þetta að einhverju leyti. Loðnan haldi sig líka ær Grænlandi og ísinn sér fjær landi en áður, en hann færi alltaf æti nær landi, þegar hann komi. Ef ekki sé æti á miðunum sé fiskurinn ekki þar og greinilegt sé að fiskurinn sé að færa sig í ætisleit. Hitinn sé að færast norðar og fiskurinn sömuleiðis. Þetta spili allt saman.

Áhyggjur af grálúðunni

„Ég hef miklar áhyggjur af grálúðunni og nú eru komnir nokkrir bátar með net á grálúðuslóðina fyrir norðan og austan. Það hefur komið illa út fyrir okkur. Þetta er þannig að‘ það kemur svona rak af lúðu inn á slóðirnar þar sem þeir eru með netin. Þetta eru slóðir sem við höfum getað farið á verið þar í einhverja daga og svo dregið hægt og rólega úr veiðinni og farið svo eitthvert annað. Núna eftir að netabátarnir fóru liggja í þessu út á Norðurkanti og austur á Austfjarðamið, má segja að þeir séu búnir að þurrka uppslóðina fyrir trollið. Helst þarf maður því að fara á staði þar sem þeir eru ekki búnir að vera. Þetta er togslóðir sem maður er búinn að stunda síðan maður byrjaði í brú. Það er bara lagt yfir þetta þvers og kruss trossur sem liggja í 5 til 6 sólarhringa. Það er  því búið að hertaka ansi mikið af togslóðinni sem maður er búinn að stunda undanfarin ár. Ég mældi það í fyrra að á einni slóðinni bátur búinn að leggja net yfir 50 sjómílna svæði og loka því þannig fyrir trollinu. Segja má að það megi afskrifa þessa slóð, sem netabátarnir eru að stunda nú. En einhversstaðar verða allir að vera,“ segir Bergþór.

Hraf GK. Á þessu skipi var Bergþór í 29 ár, fyrst undir nafninu Sléttanes ÍS

Í 29 ár á sama skipinu

Bergþór Gunnlaugsson er fæddur og uppalinn á Þingeyri við Dýrafjörð. „Ég byrjaði á sjó þar 17 ára gamall fyrir 36 árum. Ég byrjaði á Framnesinu, sem Kaupfélag Dýfirðinga átti. Fór fljótlega yfir á Sléttanesið, sem einnig var í eigu KD. Kom nýr 1983 til Þingeyrar, smíðaður á Akureyri sem ísfisktogari og var hann það til 1993 en þá var lengdur um 10 metra og breytt í frystitogara í Póllandi.

Þegar skipið var selt til Þorbjarnar í Grindavík 1999 og fékk nafnið Hrafn fylgdi ég með. Ingimundur hf. í Reykjavík keypti reyndar skipið að vestan og átti það í þrjár vikur og seldi svo. Ég var á þessu skipi í 29 ár. Þetta var ákaflega gott skip, sem fór vel með mann. Hann var reyndar ekki með mikinn togkraft og töluvert minni, heldur en skipin eins og þau eru í dag, en okkur gekk ágætlega þrátt fyrir það. Þorbjörninn átti annan frystitogara, sem heitir Hrafn Sveinbjarnarson og á enn. Þess vegna var hinn togarinn stundum kallaður Hrafn föðurlausi.  Þegar Hrafn GK var svo seldur til Rússlands fyrir fjórum árum, fór ég yfir á Gnúp GK í eigu Þorbjarnar og loks fór ég yfir á Tómas Þorvaldsson GK í vor þegar Þorbjörn keypti hann, sem annar af skipstjórunum á móti Sigurði Jónssyni, en hann hafði þá verið á Hrafni Sveinbjarnarsyni.“

Fyrirkomulagið er þannig að róið er einn túr á sjó og einn túr í fríi. Þetta hefur komið ágætlega út. Þorbjörn HF er búinn að vera með þannig rekstarform á frystitogurunum síðan haustið 2014 að það eru tvær áhafnir á hverju skipi.

 

 

 

Deila: