Landa ígulkerum í Hólminum
Bátar Þórishólma í Stykkishólmi hafa verið að landa ígulkerum frá því í september. Bátarnir eru Fjóla SH 7 og Sjöfn SH 707. Fjóla hefur verið að fá um 1,4 tonn í róðri en mest 2,3 tonn og Sjöfn hefur verið með tæp 2 tonn og mest tæp 3 tonn í róðri.
Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við varúðarsjónarmið að afli fiskveiðiárið 2017/2018 verði ekki meiri en 250 tonn innan ákveðins svæðis í innanverðum Breiðafirði.
Stofnstærðarmat, framkvæmt í september 2015 og apríl 2016 í innanverðum Breiðafirði, bendir til að 2.500–3.000 tonn af ígulkerum séu á svæðunum. Í ljósi varúðarsjónarmiða miðast ráðgjöf við 10% af lægra gildi þessa mats.
Ígulkeraveiðar hófust árið 1993. Langmest var veitt í Breiðafirði. Á árunum 1997–2003 lögðust veiðarnar að mestu af. Þótt samdráttur í afla skýrist að verulegu leyti af versnandi markaðsaðstæðum, létu mörg bestu veiðisvæðin verulega á sjá eftir veiðarnar. Veiðar á ígulkerum hófust að nýju í Breiðafirði árið 2004.
Ljósmyndir Hjörtur Gíslason