Ísbreiðan óvenju norðarlega í ár

Deila:

Hafísinn, þessi landsins forni fjandi, virðist býsna langt undan ef marka má nýlegar myndir frá dönsku veðurstofunni. Samkvæmt þeim er ísbreiðan óvenju langt norður í hafi en samanburður við kort frá því í ágústbyrjun og miðjan október í fyrra sýnir að ísinn er talsvert norðar en þá. Um þessar mundir er ísbreiðan jafnan með minnsta móti enda heitustu mánuðir ársins nýlega að baki.

Fáein ár eru síðan hafís truflaði æfingar danska sjóhersins við Kong Oscar-fjörð, sem er rétt norðan við Scoresbysund, en fjörðurinn er talsvert sunnar er ísbreiðan er nú. Skip komust ekki að Meistaravík í mynni fjarðarins og skilja varð búnað eftir. Twin-Otter flugvélar Norlandair urðu að selflytja mannskap til Constable Point þar sem Dash-8 flugvélar Flugfélags Íslands tóku við honum og fluttu til Íslands.

Myndin til vinstri sýnir ísbreiðuna 16. október 2016 en myndin til vinstri sýnir ísbreiðuna 1. október 2017. Myndir: Danmarks Meteorologiske Institut

Myndin til vinstri sýnir ísbreiðuna 16. október 2016 en myndin til vinstri sýnir ísbreiðuna 1. október 2017. Myndir: Danmarks Meteorologiske Institut

Á sama tíma og ísbreiðan er svo langt norður í hafi streyma inn tilkynningar frá íslenskum skipum til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar um borgarísjaka á miðunum norðvestur og norður af Vestfjörðum og jafnvel langt inn á Húnaflóa. Varðskipið Týr sigldi fram hjá borgarísjökum á þessum slóðum í eftirlitsferð undir lok síðasta mánaðar og tók Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður mynd af einum þeirra. Sá var um tuttugu metra hár og sjötíu metra breiður. Smærri jakar voru í grenndinni. Tilkynningar um borgarísjaka hafa einnig borist frá áhöfnum flugvéla á ferð um þessar slóðir.

 

Deila: