Tandraberg framleiddi 25.000 bretti í september

Deila:

September sl. var svo sannarlega annasamur mánuður hjá starfsmönnum Tandrabergs. Tandraberg annast meðal annars landanir úr fiskiskipum, útskipanir og smíði á vörubrettum en brettin eru nýtt undir frosnar fiskafurðir. Framleiðsla á frosnum afurðum hefur aukist mikið í Fjarðabyggð með tilkomu nýs uppsjávarfrystihúss á Eskifirði og hefur framleiðsla á vörubrettunum aukist í samræmi við það.

Einar Birgir Kristjánsson framkvæmdastjóri Tandrabergs segir í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar, að umsvifin í Fjarðabyggðarhöfnum séu gríðarleg og það sé ærið verkefni fyrir fyrirtækið að veita þá þjónustu sem þörf er á.

„Við byggðum brettaverksmiðju í Neskaupstað og tók hún til starfa árið 2015. Í verksmiðjunni starfa 4-5 menn. Við gætum aldrei annað þörfinni fyrir bretti ef verksmiðjan væri ekki til staðar. Við framleiddum 25.000 bretti í nýliðnum september en með gamla laginu hefði slík framleiðsla krafist 260-270 dagsverka.

Brettaframleiðslan fer allvíða en langflest bretti eru nýtt af Síldarvinnslunni og Eskju. Nokkuð fer til Loðnuvinnslunnar en minna til annarra fyrirtækja. Þessi bretti eru notuð jafnóðum og þau eru framleidd og á notkuninni má sjá að framleiðslan hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum í Fjarðabyggð, ásamt því sem vinnsluskip landa þar, er tæplega 31.000 tonn af frosnum afurðum í septembermánuði einum. Þetta eru ótrúlegar tölur.

Síldarvinnslan notaði rúmlega 12.500 bretti í september og Eskja rúmlega 9.300, en Eskja setur meira af afurðum á hvert bretti. Og þessi septembermánuður er ekkert einsdæmi; brettaframleiðslan í ágúst var litlu minni eða 22.300 bretti. Í brettaverksmiðjunni er búið að framleiða 76.000 bretti það sem af er árinu og er ekki ósennilegt að framleiðslan nái 100.000 brettum áður en áramót ganga í garð,“ sagði Einar Birgir.
Ljósmynd Hákon Ernuson.

Deila: