Fór upp í brú að sækja flækjubókina

Deila:

Hrefna Jónsdóttir er maður vikunnar á Kvótanum að þessu sinni. Hún er Vestmanneyingur og starfar hjá Vinnslustöðinni. Áhugamálin eru lestur góðra bóka ferðalög og samvera með fjölskyldu og vinum. Hún byrjaði ung í humri, vann einnig í saltfiski og var á sjó.

Nafn?

Hrefna Jónsdóttir.

Hvaðan ertu?

Vestmannaeyjum.

Fjölskylduhagir?

Ég er gift Birni Matthíassyni og eigum við þrjú börn. Kristjönu 17 ára, Birki 11 ára og Bergdísi 7 ára.

Hvar starfar þú núna?

Ég er starfsmannastjóri og yfirmaður öryggismála hjá Vinnslustöðinni hf.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ætli ég hafi ekki verið á tólfta eða þrettánda ári og vann þá í humri.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytnin og starfsfólkið

En það erfiðasta?

Erfið starfsmannamál sem koma upp geta oft reynt á mann.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ætli það sé ekki þegar ég var í fyrsta túr á Þórunni Sveinsdóttur og var send upp í brú að sækja flækjubókina sem ég og gerði og kom til baka frekar rauð í kinnum eftir þá sendiferð.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ætli það séu ekki karlarnir sem ég vann með í saltfiski á unglingsárunum. Mjög flottir karakterar sem voru þar. 

Hver eru áhugamál þín?

Ferðast, lestur góðra bóka og vera með fjölskyldu og vinum.  Ætli ég verði ekki að viðurkenna að ég hafi líka áhuga á tölvuleikjum, en ég spila Candy Crush nánast alla daga en ekki í vinnunni samt.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ekkert eitthvað sem er alveg í uppáhaldi en mér finnst svið ofsalega góð með góðri rófustöppu.

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég fór í draumafríið í haust með yndislegum vinum og maka þar sem við eyddum nokkrum dögum í Barcelona og í viku á siglingu í Miðjarðarhafinu.   Svo eru öll frí með fjölskyldunni líka draumafrí.

 

 

Deila: