Hvalur skemmdi bát

Deila:

Miklar skemmdir urðu á bát sem var á handfæraveiðum úti fyrir Höfnum á Reykjanesi í gær. Skrúfa og öxull skekktust og lítið gat kom á skrokkinn. Sjómennirnir tveir sem voru um borð þakka sínum sæla að bátnum hafi ekki hvolft eða hann sokkið. Frá þessu er sagt á ruv.is

Sjómanni á handfæraveiðum úti fyrir Höfnum í Reykjanesi var mjög brugðið þegar hvalur synti upp undir bátinn þannig að mikið högg kom á hann. Maðurinn segir að litlu hefði mátt muna að gat hefði komið á skipsskrokkinn.

Einar Aðalsteinsson var við annan mann á handfæraveiðum að veiða þorsk úti fyrir Höfnum á Reykjanesi rétt eftir hádegi í gær.

„Við vorum að kippa okkur til baka, það er alltaf látið reka, við vorum að kippa okkur til baka og sigldum milli tveggja báta. Síðan kemur þetta svaka högg á bátinn og hann hálf lyftist upp að aftan. Ég lít svona aftur, manni bregður við þetta, þá sér maður bara sporðinn koma upp úr sjónum og smá blóðpollur. Það drepst á vélinni, svo ég fer bara að spá í að koma vélinni aftur í gang, því við vorum svo nálægt öðrum bátum. Hann fer í gang og þá kemur í ljós að það er mikil skemmd á bátnum. Við tökum bara saman og dólum okkur heim,“ segir Einar.

Rétt áður en ósköpin dundu yfir hafði Einar verið að mynda hval rétt hjá bátnum og því gæti hann hafa náð myndum af sökudólgnum sem er líklega hnúfubakur. Einar segir að þó svo að nokkuð sé um að hvalir skemmi veiðarfæri veit hann ekki til þess að aðrir sjómenn hafi lent í árekstri við hval.

„Maður hefur aldrei orðið var við að þetta gæti komið fyrir,“ segir Einar.

Þannig að þér hefur brugðið ill við? „Já manni brá svolítið,“ segir Einar.

Báturinn er nú kominn upp á bryggjuna í Sandgerði. Bæði skrúfan og öxullinn skekktust.

„Og kemur titringur í bátinn þegar við siglum. Svo er það flapsinn, hann bognar niður. Þetta er fimm millimetra þykkt. Það eru engin smá átök í þessu,“ Einar.

„Það þarf mikinn kraft til að beygja þetta. Svo er það botnstykkið hjá okkur sem ef fiskleitartækið okkar, það rifnar frá botninum. Þegar við hífðum hann upp sá maður að það hefði getað komið stórt gat á bátinn, ef svoleiðis hefði verið,“ segir Einar. Lítið gat kom samt sem áður á botninn.

Einar hefur sótt sjóinn í fimmtán ár. Hann segir mun meira af hval nú en áður.

„Það hefur aukist alveg svakalega. Bara hér þar sem við erum út af ströndinni, á þessum veiðiskap sem við erum. Maður hefur aldrei séð, bara undanfarin ár hvað þetta hefur aukist mikið,“ segir Einar.

 

 

Deila: