Guðbjörg Heiða nýr framkvæmdastjóri Marel á Íslandi

Deila:

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Marel á Íslandi. Guðbjörg hefur víðtæka reynslu af stjórnun, vöruþróun og nýsköpun en undanfarin tvö ár hefur hún stýrt vöruþróunarstarfsemi félagsins á Íslandi og Bretlandi með góðum árangri.

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir

Þá starfaði Guðbjörg einnig sem verkefnastjóri í vöruþróun fiskvinnslubúnaðar þar sem hún leiddi eitt stærsta vöruþróunarverkefni Marel undanfarin ár, FleXicut vatnskurðarlausnina sem hefur umbylt hvítfiskvinnslu á heimsvísu.

Guðbjörg tekur við starfinu af Nótt Thorberg sem nú kveður Marel. Marel þakkar Nótt fyrir sitt framlag í þágu félagsins og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni.

Guðbjörg mun leiða starfsemi Marel á Íslandi í nánu samstarfi við iðnaði og alþjóðleg stoðsvið félagsins samhliða því sem hún mun áfram stýra vöruþróun á Íslandi.

„Guðbjörg hefur á undanförnum árum sýnt mikla leiðtogahæfileika í forystustörfum sínum fyrir Marel. Breytingarnar marka jafnframt aukna áherslu á vöruþróun og nýsköpun í öllu starfi Marel á Íslandi en Guðbjörg hefur mikla og farsæla reynslu á því sviði af störfum sínum fyrir félagið undanfarin ár. Guðbjörg mun sem leiðtogi Marel á Íslandi vinna markvisst að því að efla frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun til að mæta örum markaðsvexti,“ segir Davíð Freyr Oddsson, mannauðsstjóri Marel

Guðbjörg er 38 ára gömul og er með meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og próf í verðbréfaviðskiptum. Hún hefur starfað hjá Marel frá árinu 2011 en áður starfaði hún við greiningu hjá Eyri Invest. Hún á tvær dætur, 2 ára og 12 ára.

„Miðað við stöðuna í dag þá eru allar líkur á að eftir þrjá áratugi verður heildarfjöldi mannkyns 10 milljarðar og spurn eftir matvælum mun aukast um 50% á næstu 10 árum. Við stöndum því frammi fyrir því úrlausnarefni að vinna matvæli án þess að ganga á þverrandi auðlindir jarðarinnar. Matvæli þurfa að vera örugg, rekjanleg og framleidd með sjálfbærum og skilvirkum hætti. Þetta úrlausnarefni verður ekki leyst án nýsköpunar og vöruþróunar og það erum við í Marel að gera. Starfsemi Marel í Garðabæ samanstendur af gríðarlega öflugu teymi í vöruþróun og hugbúnaði sem í samvinnu við frábært framleiðsluteymi vinnur að því að færa matvælaframleiðslu til framtíðarinnar. Ég er gríðarlega spennt fyrir þessu verkefni og hlakka til að vinna með öflugu og samheldnu liði að sameiginlegum markmiðum,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi

 

Deila: