Góður gangur í kolmunnaveiðunum

Deila:

Síðustu daga hefur verið góður gangur í kolmunnaveiðunum í færeysku lögsögunni og hafa skipin verið að fá góðan afla eftir að hafa togað í stuttan tíma. Skipin hafa komið til löndunar í Neskaupstað og á Seyðisfirði hvert af öðru með fullfermi og fiskimjölsverksmiðjurnar hafa haft nóg að gera.

Börkur NK landaði í Neskaupstað aðfaranótt laugardags og Bjarni Ólafsson AK kom í kjölfar hans. Beitir NK kom síðan til Seyðisfjarðar á sunnudag og Margrét EA er á leiðinni þangað. Hákon EA kom til Neskaupstaðar í gærmorgun og landaði 340 tonnum af frystum kolmunna og mun síðan landa um 1.500 tonnum í fiskimjölsverksmiðjuna.

Beitir NK er á leið á miðin og sló heimasíða Síldarvinnslunnar á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra. „Jú, við erum á leiðinni á miðin eftir að hafa landað 3.000 tonnum á Seyðisfirði. Það hefur verið mjög góð veiði frá því undir lok síðustu viku. Kolmunninn hefur þétt sig og þá batnar aflinn. Skipin eru gjarnan að fá 400-500 tonn eftir að hafa togað í fimm tíma og aflinn hefur reyndar farið upp í 700 tonn. Áður þurfti að toga í eina fimmtán tíma til að fá 400 tonna afla. Það hefur verið góð veiði hjá öllum skipum þarna, en skipin eru færeysk og rússnesk auk íslensku skipanna. Menn eru bara bjartsýnir hvað varðar framhald veiðanna. Vonandi gengur þetta svona áfram,“ segir Tómas.
Myndin: Beitir NK er á leiðinni á kolmunnamiðin eftir að hafa landað 3.000 tonnum á Seyðisfirði. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: