Síðasta löndun fyrir þjóðhátíð

Deila:

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til Eyja í gærkvöldi með fullfermi, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Rætt er í fréttinni við skipstjórann á Vestemannaey, Birgi Þór Sverrisson

„Þetta var að mestu stór og falleg ýsa, síðan dálítið af þorski og ufsa. Við fórum beint á Ingólfshöfðann og vorum þar. Aflinn var tekinn á 36 tímum þannig að þetta gekk afar vel. Þessi stóra ýsa virðist vera nýkominn þarna enda er síld á þessum slóðum og hún sækir í hana. Það eina sem ástæða er til að kvarta yfir er veðrið. Það vantar algerlega sumarveðrið og það er búið að vera haustveður meira og minna í allt sumar. Í þessum túr var haugasjór og lengst af 6 – 7 metra ölduhæð. Þrátt fyrir veðrið hefur fiskast vel og upp á síðkastið hefur veiðst vel bæði af ýsu og karfa. Nú er þjóðhátíð framundan og það munu allir án efa skemmta sér vel um helgina. Það verður haldið á ný til veiða á mánudag,” segir Birgir Þór.

Deila: