Hlutur ÚR í Brimi stefnir í 53%

Deila:

Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur sent frá sér tilkynningu, flöggun, inn á Kauphöllina, þess efnis að hlutur félagsins í Brimi hf. stefni í tæplega 53%. Þar segir ennfremur að stefnt sé að því að hlutur ÚR í Brimi verði í framtíðinni undir helmingi hlutafjár.

Í tilkynningunni er vísað til þess að á hluthafafundi í Brim hf. þann 15. ágúst síðastliðinn var samþykkt að hækka hlutafé félagsins um 133.751.606 hluti sem skyldu afhentir Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. Hlutfjárhækkun þessi hefur nú komið til framkvæmda. Í kjölfarið eykst eignarhlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila úr 701.743.876 hlutum í 835.495.482 hluti, sem samsvarar hlutfallslegri aukningu úr 38,51% í 42,71% af heildarhlutafé Brims hf.

Þá er í flöggunartilkynningunni vísað til flöggunartilkynningar Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. frá 8. september 2019, þar sem tilkynnt var um að Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. hefði gert samning um kaup á öllu hlutafé í FISK-Seafood eignarhaldsfélagi ehf., sem er eigandi 196.500.000 hluta í Brim hf. Samningurinn var gerður með hefðbundnum fyrirvörum, sem hafa enn ekki verið uppfylltir, en gert er ráð fyrir að verði uppfylltir þann 1. desember 2019. Að uppfylltum fyrirvörum mun eignarhlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila, að óbreyttu, aukast í 1.031.995.482 hluti og hlutfall atkvæðisréttar félagsins í Brim hf. í 52,76%.

Loks segir í flöggunartilkynningunni að Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. stefni að því að hlutur þess í heildarhlutafé Brims hf. verði til framtíðar undir helmingi hlutafjár.

 

Deila: